148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:45]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar afgreiddi nefndarálit með frávísunartillögu, rökstuddri, föstudaginn 8. júní. Í dag er 12. júní. Það tók Miðflokkinn sem sagt fjóra heila daga að gera hér upphlaup í þingsal á þeim degi sem við töldum öll að væri lokadagur þings. Ef það er niðurstaðan að þingflokkur Miðflokksins telji það málinu til framdráttar að halda þinginu í gíslingu verður svo að vera. Til er ég að fara í þá efnislegu umræðu en ég hefði nú haldið að þingmenn Miðflokksins og flutningsmaðurinn sjálfur, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, væri nokkuð sáttur og ánægður með þá afgreiðslu að ekki er verið að hafna frumvarpinu heldur vísa því til frekari vinnslu (Forseti hringir.) í eðlilegum farvegi í starfshópi sem á að skipa í samræmi við ályktun Alþingis sem samþykkt var hér einróma í salnum. (Forseti hringir.) Einróma. Meðal annars með atkvæði (Forseti hringir.) Miðflokksmanna, að hluta til að minnsta kosti.