148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil eiginlega taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir sleppti honum. Það er alveg rétt, við formenn sátum og sömdum um svokölluð þinglok og öll þau hrossakaup sem þar fara fram, sem ég er nú að upplifa í fyrsta skipti. Ég veit ekki hvort er verið að gefa í skyn að maður sé svona treggáfaður eða hvernig þetta er eiginlega, en það fór ekkert á milli mála um hvað var rætt. Það var samkomulag. Það fólst í því að í stað þess að fá tvö mál sem allir minnihlutaflokkarnir í stjórnarandstöðu fóru fram á, sættum við okkur við eitt mál. Miðflokkurinn sætti sig aldrei við eitt eða neitt sem héti frávísun. Hann var heldur ekki að biðja um að málið sem hann lagði fram yrði samþykkt hér. Hann var einungis að biðja um að það færi í atkvæðagreiðslu og auðvitað tæki hann höfnun ef það yrði niðurstaðan. En ég segi það, þetta er einhver misskilningur. Mér finnst að minnsta kosti ástæða til að hlusta á þá sem sátu í þessum nefndum og á þessum samningafundum. Það voru ekki bara þingflokksformenn heldur líka formenn stjórnmálaflokkanna.