148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[14:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég held að það sé nú nauðsynlegt að leiðrétta hv. þm. Bergþór Ólason. Það er þannig að allir í efnahags- og viðskiptanefnd fengu drög að nefndaráliti meiri hlutans sendan í tölvupósti kl. 16.57 8. júní síðastliðinn, það eru 93 klukkutímar síðan að þingflokkur Miðflokksins fékk vitneskju um að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hygðist afgreiða málið eða leggja til að málið yrði afgreitt með þessum hætti, fengi þessa efnislegu meðferð, enda um gríðarlega hagsmuni að ræða. Það er dálítið sérkennilegt, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, að koma upp og tala um að hér sé um gríðarlega hagsmuni (Forseti hringir.) fyrir almenning að ræða en vilja síðan fá málið í atkvæðagreiðslu og að það verði fellt eins og hann er að kalla eftir (Forseti hringir.) — hann er að mana okkur upp í að fella málið í stað þess að vísa því í starfshóp sem vinnur málið efnislega og tryggir þar með hagsmuni almennings. (Forseti hringir.) Um það snýst afgreiðsla meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Það skiptir engu máli hversu oft (Forseti hringir.) hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson eða aðrir berja hausnum við steininn. Þetta eru staðreyndir máls.

(Forseti (SJS): Forseti biður þingmenn að gæta að tímamörkum.)