148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[14:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég hygg að sumir sem hafa tjáð sig hérna geti kannski rifjað það upp frá því fyrir hálftíma síðan að þeirri hugmynd var velt upp á vettvangi formanna þingflokka hvort geyma ætti atkvæðagreiðslu um þetta tiltekna mál, en ég skildi talsmenn Miðflokksins með þeim hætti að það væri annaðhvort um það að ræða að afdráttarlaust væri fallist á þeirra kröfur eða þetta ætti bara að hafa sinn gang og fara í atkvæðagreiðslu. Ég skildi umræður sem áttu sér stað á vettvangi þingflokksformanna með þeim hætti. Það kann að vera misskilningur en ég minnist þess að ég sjálfur nefndi hvort þetta gæti verið leið í málinu.

Ég veit ekki alveg af hverju við ættum að fara á fund til að ræða mál ef um er að ræða afdráttarlausa kröfu sem öðrum megin er engin tilslökun með. Ég veit það ekki, ég upplifi það ekki þannig að þá séu miklar forsendur til að ræða hlutina öðruvísi.

Hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Að lokum vildi ég almennt biðja þá sem taka þátt í þessari umræðu að gæta orða sinna. Mörg þung orð hafa fallið í garð einstakra þingmanna, forseta og ráðherra og mér finnst að menn ættu aðeins að stilla sig (Forseti hringir.) jafnvel þótt þeir kunni að upplifa það þannig að þeir séu að gera upp einhverjar gamlar sakir.