148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[14:13]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil bara ítreka ósk mína um að forseti geri hlé á fundinum og kalli til funda með formönnum. Ég hlustaði á ræður í gær, þar talaði hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé um að hann botnaði hvorki upp né niður í þessu máli og því sem við í Miðflokknum værum að halda fram. Hann var við sama heygarðshornið hér áðan, hann botnaði hvorki upp né niður í okkur. Ég ætla ekkert að reyna að útskýra það frekar fyrir honum, hann verður bara að eiga það við sjálfan sig. En þetta var ekki samkomulagið sem nú er í gangi. Samkomulagið var um að afgreiða málið en ekki að vísa því frá, svo að það sé ítrekað.