148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

565. mál
[14:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál er búið að þvælast alllengi í kerfinu þó að það hafi ekki þvælst þar eins lengi og áform um að gera breytingar á fyrirkomulagi verðtryggingar. Ég tel ástæðu til að nefna það sérstaklega að mér þykir breytingartillaga efnahags- og viðskiptanefndar mjög til bóta í þessu máli. Með leyfi forseta ætla ég að grípa niður í nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar, en þar segir:

„Samkvæmt 7. gr. frumvarpsins bætast þjónustuveitendur sýndarfjárviðskipta og stafrænna veskja við upptalninguna í 2. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, en aðilar sem þar eru taldir upp skulu greiða 700.000 kr. fast árgjald fyrir opinbert eftirlit.“

Nefndin áttaði sig á því að þetta væri líklega of mikið í mörgum tilvikum þar sem þarna er um að ræða sprotafyrirtæki að miklu leyti sem ekki stæðu undir slíku gjaldi. En það stendur til bóta með þeirri breytingartillögu sem liggur fyrir frá nefndinni.