148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það lítur út fyrir að fyrsta þingi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur muni ljúka hér á næstu dögum. Það er dálítið sérkennilegt að sitja í þessari aðstöðu undir stjórn ríkisstjórnar sem stofnuð var um að efla Alþingi. Á þeim átta mánuðum sem liðnir eru hefur ríkisstjórnin ítrekað sýnt með háttalagi sínu hversu lítið er á bak við þá fullyrðingu hennar að efla Alþingi. Sú klásúla ætti í raun og veru að þurrkast út af forsíðu stjórnarsáttmálans. En auðvitað skil ég að menn vilji ekki gera hann rýrari en hann er, nóg er samt. En ég lýsi vonbrigðum mínum yfir því hvernig þessi dagur hefur þróast og ég lýsi vonbrigðum mínum yfir því hvernig þessi ríkisstjórn gengur sífellt á bak orða sinna um að efla Alþingi.