148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég held að hæstv. forseti hljóti að vera sammála mér um að þessi ræða hér áðan var allsérkennileg. Eins og þingmenn, og kannski hæstv. forseti hvað helst, þekkja er iðulega gert samkomulag milli þingflokka, milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það með hvaða hætti staðið verði að þinglokunum. Það felur að sjálfsögðu í sér að menn afgreiða mál með tilteknum hætti á ólíkum stöðum, í ólíkum nefndum, hér í salnum o.s.frv., allt í samræmi við niðurstöður þess samkomulags sem gert er. Að vísa í einhverja afstöðu manna í nefnd breytir engu um samkomulagið sem gert var og fól í sér að mál yrðu afgreidd, þetta mál yrði afgreitt, þ.e. málið sem við ræðum hvað mest hér. Frávísunartillaga er tillaga um að mál skuli ekki afgreitt og þar af leiðandi svik á því samkomulagi sem gert var.