148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[15:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er býsna merkilegt mál á ferðinni sem við erum að klára í nokkuð góðri sátt. Sú leið var farin að semja við flutningsmenn um að breyta tillögunni þannig að hún hlyti ákveðna afgreiðslu og þar af leiðandi eru að ég held fulltrúar allra flokka á tillögunni. Um mikið réttlætismál er að ræða sem þingmenn Flokks fólksins hafa verið í fararbroddi fyrir. Ég hygg að í flestum flokkum megi finna fólk sem er algjörlega sammála því og hefði gjarnan viljað flytja málið. Við munum vonandi sjá málið fá fljúgandi ferð í atkvæðagreiðslunni á eftir og vonandi verða allir á málinu þegar upp er staðið.

Ég vil eins og margir aðrir óska Flokki fólksins til hamingju með að fá málið klárað. Það er alveg til fyrirmyndar að hafa lagt fram mál sem er svo mikilvægt, skiptir svo miklu máli og skiptir svo marga miklu máli að fá afgreitt.