148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[15:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska Flokki fólksins og þingmönnum hans innilega til hamingju með þetta mál, að hafa komið því alla þessa leið. Ég lýsi sérstakri ánægju yfir því að þingheimur skuli hafa tekið höndum saman til að greiða málinu leið í gegnum þingið. Eins og hefur komið fram í ræðum margra snertir málið mjög marga sem höllum fæti standa og sem við þurfum að rétta hönd. Því vona ég að meðferð málsins haldi áfram á jafn góðum vegi og það er á núna og að ekkert tefji það, þannig að þegar við komum hér saman að hausti liggi fyrir frumvarp mjög fljótlega sem við getum samþykkt svo að málið hljóti farsælan endi. Mest um verð er þó samstaðan sem hægt er að sýna ef vilji er fyrir hendi.