148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og fleiri hér inni hvetja forseta til þess að grípa í reynslubankann og hugsa um þau þrjátíu og eitthvað þing sem hann hefur setið hér og öll þau þinglok sem hann hefur verðið þátttakandi í og gerandi í o.s.frv., draga alla þá reynslu fram og freista þess að bera klæði á þau vopn sem hér eru uppi, leiðrétta óréttlætið og finna með því að gera stutt fundarhlé og fara yfir 8. dagskrármálið með hlutaðeigandi leið til þess að hægt sé að ljúka þingstörfum innan fárra daga í góðum friði. Ég treysti hæstv. forseta fullkomlega til að gera það og ég veit að hann á traust manna nóg til þess að geta gert það með miklum sóma.