148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Nú er búið að greiða atkvæði um mál 1, 2 og 3 af dagskrá og er ætlunin að greiða atkvæði um átta mál samanlagt. Í þessum þremur málum, mér sýndist vera fullmætt í öllum atkvæðagreiðslunum, er búið að greiða 189 atkvæði. Það var ekkert vandamál. Þingmenn mættu í salinn og ýttu á grænan í flestum tilfellum, samþykktu málin sem lágu fyrir og svo héldu menn áfram, eða hefðu átt að gera það, en auðvitað var nokkurt hökt og svo er enn.

Sú staða sem er uppi er vegna þess að einhver hluti þingmanna getur ekki hugsað sér að greiða atkvæði um mál sem er mjög einfalt hvað það varðar að taka afstöðu til þess hvort menn segja já, nei eða sitja hjá. Þá geta menn gert það með atkvæðaskýringu telji þeir sig þurfa það. En hér er búið að greiða 189 atkvæði frá því að þessi þingfundur hófst og mér sýnist á öllu að ekki hafi verið nein vandkvæði við það.