148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Mér sýnist við vera á ákveðnum stöðnunarpunkti hér. Ég lagði til fyrr í morgun og aftur núna og geri það hér enn og aftur að formennirnir taki sig saman og ræði þetta samkomulag því að nú höfum við talað um það fram og til baka hvort það standist eða ekki og áhöld voru um það. Mér finnst þá eðlilegt að fólk fái tíma til að setjast niður og ræða það. Ég vil af þeim sökum fara fram á við hæstv. forseta að hann geri hlé á þessum þingfundi til þess að gefa hv. þingmönnum rými til að ræða saman og komast að einhverri niðurstöðu um bæði það samkomulag sem hér um ræðir sem og lyktir þess máls sem rætt er.

Ég tel að það verði farsælasti endirinn á þessum ætlaða síðasta degi þingsins að reyna að komast að ásættanlegri niðurstöðu fyrir alla hlutaðeigandi. Ég óska eftir því enn og aftur að gert verði hlé á þingfundi svo formenn, og mögulega þingflokksformenn eftir það, geti rætt saman.