148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því að forseti hefur annað slagið tjáð sig þegar ræðumenn hafa lokið máli sínu. Forseti hefur hins vegar ekki kosið að svara þeirri spurningu sem ég beindi til hans áðan, hvort ég hafi tekið rétt eftir að forseti hafi kveðið upp úrskurð um að sú málsmeðferð sem sett er á mál Miðflokksins rúmaðist innan þess samkomulags sem gert var. Ég kalla eftir því að forseti svari þeirri spurningu. Það skiptir töluvert miklu máli, ekki bara í dag heldur líka upp á framhaldið, hvernig forseti skar úr um það. Ég er til dæmis búinn að benda á að forseti sat ekki fundi formanna stjórnmálaflokkanna þegar verið var að semja um þessi mál.

Ég krefst þess að forseti segi sína skoðun á þessu. Ef það er svo að forseti hefur kveðið upp úr erum við bara á allt öðrum stað með þingstörfin, ekki bara þessa daga sem nú eftir eru heldur fram undan.