148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[16:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Allt er þegar þrennt er. Þá er spurning hvort eigi ekki að reyna í þriðja sinn að setjast niður og finna farsæla lausn sem allir geta unað við. Ég hvet hæstv. forseta til þess. Það er náttúrlega umhugsunarefni hvers vegna þetta mál má ekki koma hér til atkvæðagreiðslu. Eru stjórnarflokkarnir hræddir við að draga úr vægi verðtryggingarinnar? Hafa ekki allir flokkar boðað fyrir kosningar að draga úr vægi verðtryggingarinnar? Svo þegar kemur að því að standa við stóru orðin neita menn að greiða atkvæði. Almenningur þarf á því að halda að við tökum á þessu máli sem hefur plagað þjóðina í áratugi. Við vitum það öll hér að það eru svo sannarlega aðstæður í samfélaginu, í þessu þjóðfélagi, til að draga úr vægi verðtryggingar á Íslandi og út á það gengur þetta mál.