148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[16:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er eitt að sýna staðfestu og það er virðingarvert, en annað er að sýna kergju. Það er komin upp kergja hér í þingsalnum sem gerir ekkert annað en að herða hnútinn. Ég vil meina að hnúturinn sé enn auðleysanlegur. Fyrir skömmu sagði hæstv. forseti réttilega í viðtali að þinglok sem nú væru yfirvofandi væru með friðsamlegustu endalokum á þingi sem hann hefði upplifað, og er hann nú þingreyndur. Ég held að margt hafi komið til, m.a. það að hann hefur verið lausnamiðaður, hann hefur verið samræðu- og samvinnulipur. En ég tel líka að stjórnarandstaðan hafi unnið á annan hátt en við eigum að venjast.

Það má kannski gagnrýna okkur fyrir það að hafa ekki verið nógu hörð, hafa ekki verið nógu mikið hér fram eftir kvöldi að öskra og garga. En við fórum í það að reyna að leysa málin. Og við fórum í þessar samræður við forsætisráðherra af einlægni. Við trúðum því, þegar við gáfum það eftir að ekki færu tvö mál áfram af hálfu hvers stjórnarandstöðuflokks heldur eitt mál, að því yrði fylgt eftir af heilindum.

Ég beini því til hæstv. forseta að forsætisráðherra (Forseti hringir.) kalli til okkur formenn flokkanna, því ég er sannfærð um að það er hægt að leysa þetta. En þetta mál verður ekki leyst (Forseti hringir.) fyrr en formenn flokkanna setjast niður og fara yfir málið.