148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[16:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég náði nú ekki alveg að klára það sem ég vildi segja um atkvæðagreiðsluna og annað. Það er tvennt sem mér fannst aðallega vanta til að geta verið á meirihlutaálitinu í þessu annars ágæta máli. Í fyrsta lagi hefði ég viljað sjá tekið á fjárveitingunum, þ.e. hvernig peningunum er ráðstafað til stofnunarinnar. Þeir eru á víð og dreif í þessu systemi öllu saman, í kerfinu, þ.e. peningar sem verið er að nota í verkefni líkt og Íslandsstofa er að vinna að. Í öðru lagi tel ég að það hefði í raun átt að skoða betur að fela atvinnulífinu stærri hluta í öllum þessum verkefnum, þ.e. að markaðsráð hefði átt að vera með meiri hluta frá atvinnulífinu, því að það er nú einu sinni þannig að það er atvinnulífið sem sér tækifærin og sækir fram. En það þarf stuðning og aðstoð og umgjörð frá ríkinu sem ríkið skapar. En ég segi enn og aftur: Þetta mál er orðið býsna gott og það er nauðsynlegt að það nái fram að ganga þótt alltaf megi eitthvað bæta.