148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[16:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Örstutt í viðbót. Ég vil hvetja ríkisstjórnina, því að þetta er mjög mikilvægt skref sem verið er að stíga hér, samvinna hins opinbera og atvinnulífsins, að halda áfram að vinna að því sem er búið að vera að ýja að, setja lagaramma eða umgjörð um samstarf eða félagaform, sameiginlegt á milli hins opinbera og einkaaðila. Oft er notað um það slagorðið eða skammstöfunin PPP á útlensku. Ég hvet ríkisstjórnina til að vinna að því að koma með almennilegt frumvarp þó að ég sé ekki of vongóð um að það verði miðað við viðhorfið þegar kemur að samstarfi við einkaaðila í heilbrigðisgeiranum. En lengi má manninn reyna í þessu efni og hvet ég ríkisstjórnina til að koma með ramma utan um þessi samskipti.

Síðan vil ég líka hvetja ríkisstjórnina til að halda áfram að reyna að gera myndina sem heildstæðasta. Því enn eru verkefni sem við erum að styðja á víð og dreif um kerfið. Það er ekki nægilega mikið gegnsæi. Ég hvet ríkisstjórnina til að halda áfram að safna þeim verkefnum saman þannig að við fáum heildarmyndina. (Forseti hringir.) Þannig getum við haldið áfram að ýta undir verkefni Íslandsstofu sem við viljum gjarnan styðja.