148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

um fundarstjórn.

[18:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að spyrja hæstv. forseta hvort eitthvað sé að frétta af þeim fundi sem fór fram fyrir skömmu síðan. Ég hef því miður ekki náð að ræða við formann Miðflokksins um hvað fór fram á honum og hvernig gekk. Ég sé hins vegar að forsætisráðherra er kominn í salinn og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra líka. Við hljótum að velta fyrir okkur hvort eitthvað hafi gerst, hvort kominn sé botn í það ágreiningsefni sem verið hefur í þessum sal eða hvernig staðan er að öðru leyti. Þannig er mál með vexti að við eigum eftir nokkrar atkvæðagreiðslur og því er mikilvægt að fá þetta á hreint sem fyrst þannig að hægt sé að hraða málum ef vilji er til þess í þinginu. Þess vegna ber ég upp þessa spurningu, hvort forseti getir upplýst okkur um hvað gerðist á umræddum fundi.