148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[19:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Um þetta mál eru, eins og gengur, eðlilega skiptar skoðanir í þingsal. Ég held því miður að þetta sé dæmi um mál þar sem byrjað hafi verið á röngum fæti, þar var farið að stað aðeins haltrandi og ekki var nógu vel staðið að undirbúningi þegar farið var í þessa samninga. Ég vil þó taka fram að að sjálfsögðu er það þannig að hinir ágætu samningamenn og embættismenn þeirra ráðuneyta sem að þessu komu gerðu vitanlega ekkert annað en að fylgja eftir skipunum eða vilja þess ráðherra sem fór með samningaviðræðurnar, þ.e. landbúnaðarráðherra á þeim tíma, núverandi formanns Framsóknarflokksins.

Þegar samningar náðust stigu fulltrúar bænda fram og kvörtuðu undan samráðsleysi. Í ljós kom að undir það síðasta var lítið eða ekkert samráð við forystu bænda áður en skrifað var undir samninginn. Er það mjög gagnrýnisvert, ekki síst gagnvart okkur hinum sem berum ákveðna ábyrgð þar sem við erum hinum megin við ráðherra, að við skyldum ekki hafa fengið réttar upplýsingar allan tímann.

Nú erum við komin með þennan tollasamning og hann er óheppilegur að mörgu leyti, hann er ekki sanngjarn fyrir íslenska bændur. Ég held líka að við verðum að horfast í augu við það, og þeir sem bera ábyrgð, í meiri hluta atvinnuveganefndar á þeim tíma, 2016, að það voru gríðarleg mistök að krefjast þess við ráðherra, þann er hér stendur, að farið yrði í það að hleypa hluta af þessum ostum fyrr inn á markaðinn. Allt var það hluti af samkomulagi um að klára búvörusamninga og tollasamninga samhliða. Það var mjög óheppilegt bix. Illa var að þessu staðið og við eigum bara að viðurkenna það. Við eigum að sjá til þess að þetta frumvarp nái ekki fram að ganga hér á þinginu. Við eigum að viðurkenna það að samningarnir eru óhagstæðir íslenskum bændum og íslenskum neytendum til lengri tíma litið. Við eigum því að skoða málið upp á nýtt.

Þegar árið 2016 var farið í að hrinda ýmsu í framkvæmd af því sem krafist eða bókað var og sett í nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar. Ýmislegt var sett af stað en ekki nógu mikið. Það er hárrétt sem hér hefur komið fram að ekki var gengið nógu stíft í að ná samkomulagi við Evrópusambandið, enda voru þeir náttúrlega á eftir okkur í þessu öllu saman og kannski ekki hægt að breyta samningnum mikið á þeim tíma.

En við erum þannig stödd í dag að við þurfum að taka ákvörðun um hvað ætlum við að gera við þetta vonda mál, hvað við ætlum að gera við þennan vonda samning. Margt hefur breyst síðan þetta var undirritað, mjög margt. Staða landbúnaðarins er allt önnur, einkum má segja að staða sauðfjárbænda sé sérstaklega snúin, en auðvitað á mjólkuriðnaðurinn líka í vök að verjast. Það er alveg ljóst að við getum ekki horft fram hjá því.

Þar fyrir utan þá kemur í ljós að sá skilningur sem við leggjum í orðið sérostar er greinilega nokkuð misjafn. Það er alveg kristaltært að þegar talað er um sérosta er í mínum huga verið að tala um osta eins og parmesan og eitthvað slíkt. Við erum ekki að tala um venjulega Gouda-osta og þess háttar, sem eru líka á þessum lista, ásamt ýmsum öðrum á tollalistanum.

Við verðum að stíga nokkur skref til baka og velta því fyrir okkur hvort við getum undið ofan af þessu með einhverjum hætti og lært af því, að sjálfsögðu.

Virðulegi forseti. Þetta er afar lítill tími sem gefinn er til að ræða svona gríðarlega stórt mál. Ég tek undir með þeim sem talað hafa varðandi það að frumvarpið fari til nefndar milli umræðna, kannski á öðrum forsendum. Ég held að það sé mikilvægt að nefndin setjist yfir málið aftur og velti því fyrir sér hvort ástæða sé hreinlega til að rannsaka og skoða málið enn betur og e.t.v. koma með annars konar breytingartillögur eða hreinlega að vísa málinu aftur til ráðherra, eða hvernig sem það er. Málið er ekki tilbúið til þess að það sé afgreitt hér.

Hvað eigum við að læra af þessu? Við eigum að sjálfsögðu að læra af því að hlusta á okkar ágætu vini, íslenska bændur, þegar þeir hafa upp varnaðarorð, og vera líka menn viðurkenna að of geyst hafi verið farið.