148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[19:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta mál kom til okkar í atvinnuveganefnd þar sem við fengum það til úrlausnar. Búið er að reifa málið ágætlega, hvernig það er tilkomið. Mér þykir ástæða til að rifja upp og segja hér að við Vinstri græn greiddum atkvæði á móti þeim tollasamningi sem hér er undirliggjandi og vöruðum mjög við afleiðingum þess að innleiða hann með þeim hætti sem samþykkt var á sínum tíma. Við höfðum áhyggjum af innlendri framleiðslu þó að hún gæti ekki verið í samkeppni við margfalt stærri markaði erlendis.

Síðan kom nefndarálit frá þáverandi meiri hluta atvinnuveganefndar með viljayfirlýsingu um að flýting yrði á hluta samningsins fram á fyrsta ár. Þá var talað um upprunamerkta sérosta sem ekki væru framleiddir hér á landi. Einnig var talað um að opna markaði í Evrópu, að vinna að því samhliða fyrir mjólkurafurðir. Þannig leit sú viljayfirlýsing út. Síðan eru liðin nokkur ár og lítið hefur verið hreyft við þessu af hálfu þeirra sem áttu að fylgja þessum málum eftir þar til málið kemur til kasta okkar og núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer að vinna með þetta og leggur fram tillögu um að framfylgja viljayfirlýsingunni.

Þar er einungis annar hluti viljayfirlýsingarinnar sem verið er að tala um að hrinda í framkvæmd, því að í ljós kemur þegar við í atvinnuveganefnd köllum til gesti úr báðum ráðuneytum að ekkert hefur verið gert í því að vinna að opnun markaða fyrir mjólkurafurðir, sem var hluti af þessari tvíhliða viljayfirlýsingu, og vinna að mótvægisaðgerðum til þess að mæta aukinni samkeppni.

Ég tel að full ástæða sé til þess að taka þetta mál aftur inn í atvinnuveganefnd í ljósi nýrra upplýsinga um hvernig um málið er búið. Ég hef miklar áhyggjur, eins og ég hafði þegar tollasamningurinn var afgreiddur á sínum tíma, af samkeppnisstöðu íslensks mjólkuriðnaðar í þessum málum. Ég held að ekki sé mikil ástæða til þess að demba hér inn á markaðinn slíku magni af ostum, því að það kom líka í ljós í nefndinni að ekki er hægt að greina sérosta frá öðrum ostum eins og brauðostum og öðrum þeim sem eru hér í samkeppni. Það var því ekki nokkur möguleiki á því að aðgreina það undir tollanúmerum að eingöngu væri um að ræða upprunamerkta sérosta sem ekki væru framleiddir hér á landi og flýta innleiðingu á tímabilinu, að taka þetta inn á fyrsta ári.

Við reyndum að vinna með málið, eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, og að fara með þetta yfir á tvö ár og skilyrða það með ýmsum hætti, svo sem að kannað yrði hvaða áhrif þetta hefði á framleiðslu innan lands. En ég tel að málið sé vanbúið og að við eigum að flýta okkur hægt í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt að atvinnuveganefnd fjalli aftur um þetta mál í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir milli 2. og 3. umr. Ég styð framsögumann málsins heils hugar og legg áherslu á að það verði gert.