148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[20:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði svo sem ekkert að taka til máls í þessu máli en fann mig þó knúinn til að koma hér í pontu til að minna á ákveðna hluti. Ég verð að segja að ég er dálítið hugsi eftir ræðu hv. þm. Snæbjörns Brynjarssonar. Ég hef aldrei verið hlynntur svona þjóðernisbarningi um að við séum ekki aumingjar heldur séum við Íslendingar, hvort sem það á við um þá sem vilja flytja inn vörur eða lækka eða fella niður tolla af vörum, eða aðra. Ég kom inn á sömu rök í umræðum í gær um vexti og verðtryggingu.

Sjálfum finnast mér ostar mjög fínir þótt ég sé ekki með bjór á kantinum og vona að hv. þingmaður krefjist þess ekki, sem er draumsýn hans til að njóta ostanna. Ég ætla samt að minna hv. þingmann á að það getur hann gert því að ekki er verið að tala um að banna innflutning. Það er ekki verið að tala um að hamla honum, verið er að tala um hversu fljótt eigi að innleiða tollkvóta. Á að taka tollkvóta sem samið er um að koma inn á fjórum árum, taka hann inn á tveimur árum, eins og hv. atvinnuveganefnd hefur lagt til, eða hvernig á að gera þetta?

Ég kom hér upp ekki síst vegna orða hv. þm. Smára McCarthys þar sem hann talaði um osta og innlenda ostaframleiðslu. Mér fannst ég skynja það hjá hv. þingmanni, mér þykir leitt að hann sé ekki hér í salnum, að þetta væri ekki stórt mál. Auðvitað er það alltaf þannig að sjónarhornið skiptir máli.

Mig langar þó að halda því til haga svo það hafi verið sagt í þessari umræðu að samkvæmt þeim samningi sem hér liggur undir, og aðeins er verið að ræða um hversu fljótt eigi að uppfylla og innleiða, mun tollfrjáls innflutningur osta aukast um 510 tonn þegar samningurinn er að fullu kominn til framkvæmda. Sá innflutningur samsvarar um 8,3% af stærð íslensks ostamarkaðar í magni og um 10,9% í verðmætum. Það eru alveg alvörutölur. Ég vil að fólk hafi það í huga.

Tekjutap, það er alltaf erfitt að meta það. Hagsmunaaðilar hafa metið það á bilinu 1.200–1.600 millj. kr. á hverju ári. Ég ætla hvorki að staðfesta né bera brigður á þær tölur. Ljóst er að þetta er ekki eitthvert smámál, það er það sem ég vil draga hér fram.

Svo ætla ég að höggva í sama knérunn og ég hef gert áður þegar talið berst að garðyrkjunni og almennt að tollamálum. Garðyrkjan er oft tekin sem dæmi um hversu Íslendingar eru ekki miklir aumingjar heldur standi nú vel þegar kemur að samkeppni þegar opnað er á innflutning. Þá ætla ég líka að minna á það, án þess að ég sé, eins og ég sagði hér í upphafi, ósammála því að Íslendingar séu einhverjir aumingjar. Ég held að Íslendingar séu jafn misjafnir og þeir eru margir.

En mig langar aðeins að rifja upp hvað gert var á sínum tíma þegar tollar á grænmeti voru lækkaðir, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom aðeins inn á í ræðu sinni. Í kjölfarið kom uppbygging sem við búum enn að. En ég held að sé erfitt að neita því að það sé að þakka þeim mótvægisaðgerðum að miklu leyti sem gripið var til. Þá horfi ég sérstaklega til þess að ef ekkert yrði að gert væri hætta á að draga myndi úr þessum hluta landbúnaðarins. Gerður var samningur við garðyrkjubændur sem innihélt beingreiðslur, stuðning til nýfjárfestinga, úreldingar á eldri rekstrareiningum, auk niðurgreiðslu á raforku. Enn erum við með framlög til garðyrkjunnar upp á hundruð milljónir kr. Ég dreg fram þessar staðreyndir svo við séum að ræða um sömu hlutina þegar við tökum afstöðu til þessa máls.