148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

veiting ríkisborgararéttar.

660. mál
[20:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég kom hér upp í desember sl. í svipuðum erindagjörðum og ræddi þá í atkvæðaskýringu um framkvæmd undirbúnings þessarar lagasetningar og gerði við það athugasemdir. Nú er staðan sú að ekkert hefur breyst hvað þetta varðar. Verklagið er enn þannig að unnið er í þriggja manna undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar og um þá sem óska eftir því að fá ríkisborgararétt með lagasetningu fáum við almennir þingmenn engar upplýsingar.

Ég er ekki hér til að tala persónulega um þetta ágæta fólk sem ég vona að verði góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar eftir veitingu ríkisborgararéttarins. Ég vil nýta tækifærið til að hvetja til þess að við förum í gegnum þá vinnu að breyta regluverkinu þannig að ferlið verði opnara og gegnsærra. Margir eru þeirrar skoðunar og upplifa það þannig að ef maður kemst í fréttir eigi maður meiri séns, ef maður er góður í íþróttum eigi maður meiri séns og þar fram eftir götunum. Þetta eru tilviljunarkenndar ástæður gegnumgangandi og þegar menn spyrja um reglurnar sem þriggja manna undirnefndin hefur til viðmiðunar fást engin svör. Það er ekki bara það að þingmenn viti ekki hver viðmiðin eru, viti ekki nein deili á þeim sem verið er að taka ákvörðun um, heldur hef ég líka upplifað þetta sem tilviljunarkennt. Það er ekki gott. Við þurfum að haga málum þannig að ekki séu sérstakar líkur til þess að menn detti inn með tilviljunarkenndum hætti. Hugsanlega þurfum við að breyta regluverkinu á þann veg að færri lendi á þröskuldi vegna smávægilegra mála, sama hver þau kunna að vera; smávægileg brot á einhverju sem ég vil ekki nefna. Að miklu leyti eru þetta umsækjendur sem hafa komið sér í þá stöðu að keyra bílinn sinn einu sinni of hratt eða eitthvað þess háttar.

Mér finnst slæmur bragur á því að þetta sé allt inni í undirnefnd þingnefndar, þar sem enginn fær að vita neitt. Ég vona að við göngum til þess verks að laga þetta. Þetta á að vera til þess að taka á sérstökum aðstæðum. Fyrir nokkrum árum voru sett hér sérlög um að Bobby Fischer yrði veittur ríkisborgararéttur. Það var auðvitað ekki fordæmisgefandi fyrir neinn nema ef vera skyldi Spasskí, ef hann vildi koma. Við verðum að nálgast þetta þannig að ferlið verði gegnsærra og taka þetta verksmiðjufæribandaferli úr höndum Alþingis.

Þessu vildi ég koma á framfæri í þessari umræðu.