148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[20:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Ég þarf ekki að fjölyrða um það hér með hvaða hætti og með hversu skömmum fyrirvara þetta mikla mál kom til meðferðar hjá þinginu. Þingmönnum er kunnugt um það. Ég ætla heldur ekki að þreyta þingmenn á því að fara í gegnum allt nefndarálitið, sem er upp á 21 blaðsíðu, heldur vísa til þingskjalsins sem búið er að dreifa hér.

Fram kemur á fyrstu síðunni löng upptalning á öllum þeim umsagnaraðilum sem nefndin kallaði til og hefur fjallað um þetta mál á allmörgum löngum fundum með stuttu millibili, á fáum dögum, og unnið það eins samviskusamlega og kostur er.

Almennt má segja um frumvarpið að annars vegar er stefnt að því að lögfesta ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2016 eins og hún er tekin upp í EES-samninginn, og hins vegar að setja frekari ákvæði til fyllingar og viðbótar reglugerðinni þar sem hún mælir fyrir um að settar verði sérreglur í landslög. Samþykkt frumvarps þessa er forsenda fyrir þátttöku Íslands í samevrópsku regluverki um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Í frumvarpinu sett fram það efnislega markmið, eins og í gildandi lögum, að stuðla að því að með persónuupplýsingar verði farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Frumvarpið hefur þá sérstöðu að það snertir allt samfélagið.

Persónuverndarreglugerðin hefur þá sérstöðu að hún veitir aðildarríkjum talsvert svigrúm til að setja sérreglur um tiltekin atriði, útfæra sum ákvæði hennar eða víkja frá þeim og í sumum tilvikum er skylt að festa ákveðin atriði sérstaklega í landslög. Ástæður setningar sérreglna í landslögum má greina í fjóra flokka:

1. Heimild til nánari útfærslu á efni tiltekinna reglugerðarákvæða.

2. Valkostir um að setja efnisreglur á tilteknum sviðum.

3. Svigrúm ríkja til að setja lög sem víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar.

4. Skyldur sem hvíla á ríki til að setja sérstök atriði í lög eða reglur.

Almennt má segja um innleiðinguna að með vísan til þess að reglugerðin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn er mikilvægt að árétta að ekki er um eiginlega innleiðingu að ræða við þessa lagasetningu núna. Því er vakin athygli á nauðsyn þess að lögfesta sérstakt innleiðingarákvæði eftir að gerðin er orðin hluti af EES-samningnum. Slíkt ákvæði mætti færa í lögin samhliða breytingum á öðrum lögum.

Fjallað var talsvert ítarlega í nefndinni um afleiðingar þess ef reglugerðin yrði ekki innleidd á yfirstandandi löggjafarþingi. Vinnsla persónuupplýsinga yfir landamæri frá Íslandi til ESB fer fram á hverjum degi í miklum mæli, t.d. hjá íslenskum fyrirtækjum með starfsemi í Evrópu og hjá erlendum fyrirtækjum með starfsemi á Íslandi. Á fundum nefndarinnar hefur komið fram að ef persónuverndarfrumvarpið verður ekki að lögum á yfirstandandi þingi er hætta á að íslensk fyrirtæki lendi í margs konar vandræðum og vandkvæðum við flutning á persónuupplýsingum sem eru forsenda þjónustu á netinu, í tölvukerfum og öðru. Þá kunni samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja að veikjast og ófyrirsjáanlegt er hvernig viðskiptavinir þeirra í Evrópu myndu bregðast við.

Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Viðskiptaráðs Íslands er áréttað mikilvægi þess fyrir atvinnulífið að frumvarpið verði að lögum eins fljótt og hægt er. Tafir á innleiðingu skapi óvissu sem veikt geti samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi. Ísland verði flokkað sem þriðja heims ríki sem falið gæti í sér umtalsvert fjárhagslegt tjón fyrir hið opinbera, atvinnulífið og viðsemjendur þeirra. Þá lýsti Íslensk erfðagreining í umsögn sinni áhyggjum af því að hætta geti skapast á áframhaldandi óheftu samstarfi við erlenda samstarfsaðila sem gera þá kröfu að Íslensk erfðagreining starfi í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Allítarlega er fjallað um þetta í nefndarálitinu sem er upp á 21 blaðsíðu. Ég hvet þingmenn til að kynna sér efni málsins. Nokkrar breytingartillögur hafa komið fram. Það er kannski rétt að taka það fram í sambandi við kostnaðinn sem tekinn er fram í lok nefndarálitsins að fyrir nefndinni kom fram mikil gagnrýni á þann kostnaðarauka sem frumvarpi hefði í för með sér fyrir atvinnulífið, stofnanir og sveitarfélög og að honum væri ekki mætt. Þá er bent á að Persónuvernd hefði verið tryggt aukið fjármagn á fjárlögum til að sinna auknum og nýjum verkefnum, en aðrar stofnanir ekki fengið slíka aukningu. Að því þarf að hyggja.

Fyrir nefndinni kom fram hörð gagnrýni varðandi þinglega meðferð, hversu seint fyrirliggjandi frumvarp væri fram komið. Bent var á að um væri að ræða flókið mál sem hefði í för með sér auknar skyldur og kostnað fyrir atvinnulífið. Getur nefndin út af fyrir sig ekki annað en tekið undir það.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar leiðréttingar til að tryggja skýrleika og vísanir milli greina.

En að öllu framangreindu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skrifar undir álitið með þeim fyrirvara að hún tekur ekki ábyrgð á þeim villum sem kunna að leynast, eins og þar segir, í þessu umfangsmikla og mikilvæga þingmáli vegna þess hversu skammur tími hefur gefist til meðferðar þess.

Undir nefndarálitið, meirihlutaálit, skrifa Páll Magnússon, Guðmundur Andri Thorsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Birgir Ármannsson, Jón Steindór Valdimarsson, Willum Þór Þórsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, með þeim fyrirvara sem ég las.

Meiri hlutinn leggur sem sagt til að þetta frumvarp verði samþykkt með þeim breytingum sem fylgja á sérstöku þingskjali.