148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[21:06]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem komið hefur fram í máli hv. þingmanna þar sem þeir tala um þann skamma tíma sem okkur í allsherjar- og menntamálanefnd var skammtaður til vinnslu málsins svo við þurftum næstum því að leggja nótt við dag til þess að vinna málið. Ég vil í því sambandi færa samnefndarfólki mínu öllu þakkir fyrir góða og mikla vinna. Ég vil líka þakka sérstaklega starfsfólki nefndasviðs sem lagði nótt við dag til þess að koma málinu í þann búning sem við höfum hér nú. Loks vil ég þakka höfundum frumvarpsins sem komu til okkar aftur og aftur og ræddu við okkur ótal atriði þessa frumvarps og ótal álitamál og hjálpuðu okkur að komast að niðurstöðu um þann besta búning sem hægt væri að hafa á þessu.

Það er ekki alveg alls kostar rétt sem haft var eftir hæstv. dómsmálaráðherra hér að ekki hafi verið neitt svigrúm til að vinna málið, það er alls ekki svo. Við höfum svigrúm til þess. Við þurfum að innleiða þessa reglugerð, en svo er í þessari reglugerð margvíslegt svigrúm sem einstakar þjóðir geta unnið úr.

Að slepptum fyrirvaranum um málsmeðferðina, sem hefur verið svo hröð og sem helgast náttúrlega ekki síst af þeirri tímapressu sem við erum undir í þessu máli og við getum ekkert talað okkur undan, er rétt að leggja áherslu á að hér er um raunverulegt og mikið framfaramál að ræða, réttarbót fyrir hinn almenna borgara. Varðandi málefni sem verða sífellt mikilvægari á okkar tímum eiga eftir að skipa æ meira máli þegar um er að ræða gagnasöfnun, um alls kyns málefni einstaklinga í ófyrirséðri framtíð á ófyrirséðan hátt, og hvernig þau gögn verða notuð. Þá er mjög mikilvægt að til séu vönduð lög. Við erum þegar farin að fá nasasjón af slíkri starfsemi með fréttum að Cambridge Analytica og Facebook-lekanum. Það er sum sé verið að tryggja borgunum réttindi og styrkja þau að fjölmörgu leyti.

Í þessari reglugerð og í þessum lögum eru hagsmunir borgaranna, einstaklinganna, okkar, almennings, í fyrirrúmi. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga. Það er stundum þannig í íslenskri umræðu að þegar kemur að réttindum borgaranna er eins og sumum finnist það í sjálfu sér vera áhyggjuefni og telja að þau séu íþyngjandi, það sé vesen og fara að finna því allt til foráttu. Okkur er tamt að hugsa svona mál út frá hagsmunum fyrirtækja og stofnana frekar en hugsa þetta út frá hagsmunum borgaranna.

Það eru náttúrlega ýmis álitamál í þessu frumvarpi og við fórum í gegnum í okkar hópi og með höfundum frumvarpsins. Fjallað er um það í mjög rækilegu nefndaráliti sem ég leyfi mér að vísa hér til. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því hvernig nefndin áréttar þann skilning sinn á lögunum að persónuvernd muni í beitingu stjórnvaldssekta og dagsekta og (Forseti hringir.) gjaldtöku ávallt og ævinlega hafa að leiðarljósi reglu um meðalhóf og gæta þess að (Forseti hringir.) íþyngja ekki þeim sem sektin beinist að.