148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[21:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Mér líður nú eins og hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni sem lýsti því hérna fyrr í dag að honum liði eins og hann væri á landsfundi Framsóknar 2016. Ég held að framsóknarflokkarnir tveir þurfi að fara í eitthvert sáttamiðlunarferli og gera út um forræði yfir þessum málum (Gripið fram í.) sem þeir keppast við að tala fyrir. En ég ætla ekkert að orðlengja það. (Gripið fram í.)

Ég er hér kominn til að gera grein fyrir fyrirvara sem ég geri við álit meiri hluta velferðarnefndar í þessu máli. Það er ekki efnislegur fyrirvari af því að ég er fyllilega sammála því að þessi tillaga verði felld. Þetta er fyrirvari vegna málsmeðferðar í velferðarnefnd sem var með miklum ólíkindum. Handarbakavinnubrögð væru eiginlega milda leiðin til að lýsa því.

Af því að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson talaði hér um að þöggun hefði ríkt í 16 ár um þetta mál þá er þöggun einmitt það sem mætti kannski segja að hafi einkennt meðhöndlun nefndarinnar á þessu máli. Kallaðir voru þrír umsagnaraðilar á fund nefndarinnar. Hverjir fengu ekki boð af þeim sem skiluðu inn umsögn? Nefni fimm þeirra:

Reykjavíkurborg, sem hefur nú eitthvað um borgarlandið að segja. Reykjavíkurborg fékk ekki að koma til að færa rök fyrir þeirri umsögn sinni að samgönguforsendur þingsályktunartillögunnar væru bara rangar, kolrangar, ranghermdar upp úr skýrslum borgarinnar.

Verkfræðingafélag Íslands, sem mat tímann ónógan sem er gefinn til þessa verks. Þetta er fólkið sem kann að verkefnastýra, eins og reyndar Jón Hjaltalín Magnússon, frambjóðandi Miðflokksins, sem fyrir kosningar núna í maí skrifaði að það tæki heilt ár að vinna það sem samkvæmt breyttri tillögu Miðflokksins, þessa sama Miðflokks, á að taka fjóra mánuði. Það á að skila tillögum í október. Hér kemur síðan Þorsteinn Sæmundsson með enn eina töluna, 9 til 12 mánuði, eða 10 til 15 mánuði (Gripið fram í.) og maður veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Þetta er hver þvælan ofan í aðra. (Gripið fram í.)

Höldum síðan áfram að tala um umsagnaraðila sem gera athugasemd við þessa tillögu þeirra og fengu ekki að koma til velferðarnefndar, þökk sé þöggun í boði Miðflokksins.

Nefnum þrjá þeirra í viðbót. (Gripið fram í.) Landlæknir, sem segir bara að heilbrigði og öryggi landsmanna sé teflt í hættu með þessu bulli. Eða Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, stærsta starfsstétt Landspítalans, (Gripið fram í.) sem kallar eftir nýjum spítala sem fyrst og þolir ekki að bíða í fjóra mánuði, 10 mánuði, 12 mánuði eða hvaða Miðflokksmann maður spyr um tíma. (Gripið fram í.) Hjúkrunarfræðingafélagið vill þessa tillögu í ruslið. (Gripið fram í.)

Eða Háskóli Íslands. Eigum við að tala um það? Það kostaði Háskóla Íslands 10 milljarða að byggja upp Landspítala á öðrum stað. Af hverju fékk Háskóli Íslands ekki að mæta á fund nefndarinnar? Af því að það var þöggun í boði Miðflokksins í máli sem er bara dellumakerí á milli framsóknarflokkanna tveggja sem geta bara farið heim til sín og leyst þetta þar. (ÞorS: Stjórnar Miðflokkurinn? …) (Gripið fram í.) (AKÁ: Hvað með Háskólann á Akureyri?)(Heilbrrh.: Biddu um orðið.) (Forseti hringir.)