148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[22:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál er líklega meira lýsandi en nokkurt annað mál fyrir þann vanda sem við er að eiga með þessari ríkisstjórn, kerfisríkisstjórninni, ríkisstjórninni sem kemst ekki upp úr hjólförunum, getur ekki markað neina nýja stefnu, getur ekki metið neitt mál á forsendum sem þó liggja skýrt fyrir. Þegar bent er á alla gallana við núverandi áform um byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss við Hringbraut og um leið nýtingu húsa sem verið hafa í fréttum í mörg ár fyrir að vera ónýt, er því ekki svarað með rökum. Ýmist er svarað með skætingi eða með fullyrðingum sem gripnar eru úr lausu lofti, á borð við að slíkt myndi tefja framkvæmdir um 10, 15, 20, 25 ár, þó að bent hafi verið á það af fagmönnum að sú sé aldeilis ekki raunin, hægt sé að byggja hraðar og á hagkvæmari hátt þegar menn hefjast handa á nýjum stað. Nú gefst þingheimi tækifæri til þess að meta mál á grundvelli (Forseti hringir.) staðreynda og raka og beita (Forseti hringir.) fyrir sig skynsemishyggju þegar þeir komast að niðurstöðu í atkvæðagreiðslunni.