149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

mótun klasastefnu.

28. mál
[18:30]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. framsögumanni fyrir ítarlega og greinargóða framsögu. Það eru nokkur atriði sem mig langaði aðeins að reifa við hv. framsögumann.

Hið fyrsta er að við erum með stóra nefnd í gangi sem er að móta nýsköpunarstefnu fyrir Ísland á vegum nýsköpunarráðherra. Ég tók eftir því að hv. framsögumaður nefndi að klasastefna væri einn af lykilþáttum í nýsköpunarstefnu Dana. Þá fer þetta nú kannski að verða spurning um hænuna eða eggið. Mér finnst einhvern veginn að það væri hægara að byrja á nýsköpunarstefnunni og láta hana leiða til þeirra verkfæra sem hentugust þykja. Við höfum svo sem, eins og hv. þm. nefndi og veit auðvitað um, gert ýmsar tilraunir í þessa veru. Við höfum verið með landshlutaáætlanir og við höfum verið með sóknaráætlanir og sumt af því hefur tekist bærilega en annað miður.

Hv. framsögumaður gerði líka grein fyrir því að það eru til nokkrir sjálfsprottnir klasar. Margir þeirra hafa gengið mjög vel. Það sem ég er að reyna að koma orðum að hér er að ég held að það sé miklu vænlegra til árangurs í svona klasahugmyndum, sem vissulega eru víða og hafa gefist ágætlega, að hið sjálfsprottna ráði för. Ég vil nú ekki nota orðið þvinga, en það að reyna með einhverjum hætti að búa eitthvað til sem er ekki sjálfsprottið held ég að endi ekki vel. Við ættum frekar að hugsa þetta þannig að styðja við hið sjálfsprottna heldur en að reyna að búa til klasa með handafli.