149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

mótun klasastefnu.

28. mál
[18:40]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér undirliggjandi tillögu um klasasamstarf eða við getum öllu heldur kallað það opinbera stefnumótun þar að lútandi. Þetta hefur auðvitað verið nýjung síðastliðna örfáa áratugi, tvo áratugi eða svo, a.m.k. hér á landi. Hugmyndafræði klasasamstarfs barst að utan eins og margar aðrar framfarir og hefur verið reynd í sjálfstæðum eða sjálfsprottnum klösum. Hér var nefndur jarðvarmaklasi og sjávarklasi og ferðaþjónustuklasi. Hv. framsögumaður nefndi það réttilega. Ég kom lítillega að gerð tillögu um umhverfismál tengd jarðhitanýtingu og þar með klasastofnuninni og kynntist þessari hugmyndafræði og það er ekki hægt annað en að líta hana jákvæðum augum.

Ég hef vissu fyrir því að þetta tiltekna klasasamstarf í jarðhitageiranum, hefur gengið vel og skilað góðum árangri og þá kannski gildir það að hann var fyrstur í röðinni og reynslan orðin mest af honum. Hugmyndafræðin, þessi fjölþætta samvinna, er þekkt í vísindum, notuð til að byggja brýr á milli ólíkra fræðigreina og er afar algeng og þannig er reynt að nýta bæði víða, breiða þekkingu og virkt samtal til nýrra verka og nýrra hugmynda. Segja má að klasasamstarf í tiltekinni atvinnugrein eða einnig sem samstarf milli atvinnugreina og margra annarra aðila í samfélaginu, stofnana eða fyrirtækja, byggi í raun og veru á svipaðri hugmyndafræði. Það er augljóst að samvinna af þessu tagi ýtir undir frjóa nýsköpun, enda er það oftast einn helsti árangur klasasamstarfs, einmitt nýsköpun.

Gerð heildstæðrar opinberrar klasastefnu er framfaraskref og ég tel að því beri að fagna og þessari þingsályktunartillögu þá um leið sem hér liggur fyrir frá þingflokki Framsóknarflokksins. Ég sé ekki að opinber klasastefna hindri á einhvern hátt eða standi í veginum fyrir eða flæki sjálfsprottnar klasamyndanir, einfaldlega vegna þess að ekki er um boð og bönn að ræða í slíkri stefnu heldur einfaldlega viljayfirlýsingu og hvatningu. Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því eins og hér hefur komið fram á undan mér.

Í greinargerðinni er fjallað um fyrirkomulag klasastarfs í Noregi og Danmörku og skiptingu í héraðsklasa, landshlutaklasa og alþjóðlega klasa. Við fyrstu sýn, ég hef kynnt mér þessa skiptingu lauslega, gæti hún hentað hér að ýmsu leyti, kannski að öllu leyti.

Nú gengur þessi þingsályktunartillaga til hv. fagnefndar, atvinnunefndar í þessu tilviki, og það er von mín að hún fái þar röskan framgang því hún á það skilið.