149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Húsnæði er meira en steypa og bárujárn, meira en skjól frá veðri og vindum. Húsnæði heldur ekki lúxus sem á eingöngu að standa vel stæðu fólki til boða. Húsnæði er heldur ekki hefðbundin markaðsvara heldur snýst það um að búa við mannréttindi.

Tryggt húsnæði er staður sem skapar einstaklingum og fjölskyldum öryggi og við köllum það heimili.

Í dag mæli ég fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í húsnæðismálum í átta liðum sem ætlað er að taka á húsnæðisvandanum með kerfisbundnum hætti. Flutningsmaður er undirritaður ásamt öllum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar.

Með tillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að setja fram skýra aðgerðaáætlun með afmörkuðum og tímasettum aðgerðum sem tryggi húsnæðisöryggi fólks á Íslandi. Þrátt fyrir langvinnt góðæri eru húsnæðismál enn í öngstræti og þúsundir fjölskyldna á hrakhólum. Fólk á ekki að þurfa að óttast heimilisleysi hér á landi. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt að bíða eftir almennum aðgerðum, fyrir utan hvað það er kaldranalegt.

Markaðurinn hefur ekki ráðið við að leysa húsnæðisvandann og stjórnvöld ekki heldur. Aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum síðustu ár hafa verið losaralegar og augljóslega ekki skilað nægilega góðum árangri. Í stað þess að vinna markvisst að varanlegum lausnum hafa stjórnvöld frekar slökkt elda.

Það eru erfiðir tímar, kjaraviðræður eru fram undan. Þær verða snúnar en þar er sameiginlegt stef verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins að stjórnvöld verði að tryggja fólki öruggara og hagkvæmara húsnæði. Nauðsyn aðgerða, svo sem þeirra sem við leggjum fram í dag, er óumdeild, enda mikil hætta á að kjarabætur verði étnar upp á húsnæðismarkaði. Þar spilar íslenska krónan auðvitað sitt hlutverk.

Ástandið er þannig að ungt og efnalítið fólk getur ekki komist inn á húsnæðismarkaðinn á sama tíma og mikill skortur er á leiguíbúðum og leiguverð er allt of hátt — það hæsta á Norðurlöndum. Framboð á félagslegu húsnæði sveitarfélaga fyrir þá allra efnaminnstu er líka allt of lítið. Sá hópur sem er með lægstar tekjur og á þar af leiðandi mjög erfitt með að framfleyta sér á húsnæðismarkaði, en þó ekki nægilega lágar til að geta fengið úthlutað þessu félagslega húsnæði sem er af mjög skornum skammti, hefur auk þess algerlega setið eftir síðan að verkamannabústaðakerfið var lagt niður.

Það er heldur ekki nægilegt framboð á leiguhúsnæði eða hagkvæmum íbúðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur með meðal- eða jafnvel tiltölulega háar tekjur. Þrátt fyrir að húsnæðiskostnaður sé stærsti kostnaðarliðurinn hjá flestum fjölskyldum og húsnæðismál séu það málefni sem brennur hvað heitast á landsmönnum, fá þau mál allt of litla athygli á Alþingi. Þau fá ekki nægilega stóran sess í velferðarumræðunni þrátt fyrir að vera í raun risastórt velferðarmál. Við verðum einfaldlega að grípa til aðgerða, herra forseti.

Það er ekki nóg að vísa til að hér sé verið að ræða málin, verið sé að byggja aðeins meira og enn einn vinnuhópurinn um húsnæðisaðgerðir hafi verið skipaður í velferðarráðuneytinu. Fólk er einfaldlega búið að bíða allt of lengi.

Fólk með lægri tekjur er í mestum vandræðum með að koma sér inn á húsnæðismarkað og býr þar af leiðandi við töluvert meira óöryggi á leigumarkaði. Annar hópur sem hefur algerlega setið eftir er ungt fólk. Kaupmáttur þess hefur ekki aukist til jafns á við eldri kynslóðir á meðan húsnæðisverð hefur hækkað um 43% umfram almennt verðlag. Það er talsvert meiri hækkun á húsnæðisverði en annars staðar á Norðurlöndum.

Ástandið á leigumarkaði hefur alvarlegar afleiðingar en rannsóknir hafa sýnt að leigjendur eru líklegri til að eiga í fjárhagsvandræðum og börn leigjenda líklegri til að líða skort og verða jaðarsett. Í dag búa um 50.000 manns á ótryggum og dýrum leigumarkaði. Það eru 30.000 heimili. Þannig eru helstu fórnarlömb húsnæðisástandsins annars vegar fátækasti hluti landsmanna sem ekki finnur hagkvæmt húsnæði til langtímaleigu, og hins vegar ungt fólk sem ekki nær að kaupa sína fyrstu íbúð.

Aðrir hópar hagnast síðan á neyð þeirra sem koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þessir milliliðir leiguíbúða og leigjenda hagnast um marga milljarða á ári en sá hagnaður rennur beint úr vasa leigjenda.

Ríki og sveitarfélög verða að tryggja forsendur fyrir markvissa uppbyggingu leigumarkaðar með fjárhagslegum stuðningi og aðgerðum af ýmsu tagi. Þörf er á að styðja við uppbyggingu á nýju félagslegu húsnæðiskerfi sem kemur til móts við fólk sem ekki ræður við markaðskjör á húsnæði og getur hvorki keypt né leigt á almennum markaði.

Framboði á leiguhúsnæði er líka verulega ábótavant. Það verður að byggja meira og hagkvæmar til að halda aftur af verðhækkunum. Ríkið verður að stíga miklu fastar inn og tryggja fleiri og stærri stofnframlög til uppbyggingar hagkvæmra leiguíbúða.

Til lengri tíma litið á húsnæðiskerfið að vera fyrirsjáanlegt og öruggt og tryggja lántakendum fjölbreytt lánsform á hagstæðum kjörum. Byggja verður upp fjölbreyttan og öruggan leigumarkað með stefnumótun og aðkomu hins opinbera, en einnig fjölbreyttar íbúðir til kaupa á almennum markaði. Þetta er einfaldlega samvinnuverkefni markaðarins og hins opinbera. Það er lykilatriði að vinna lausnir í húsnæðismálum í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna, atvinnulífið og sveitarfélögin í landinu.

Samfylkingin leggur því fram umrædda þingsályktunartillögu í átta liðum sem ætlað er að bæta húsnæðisvandann kerfisbundið. Þingmenn Samfylkingarinnar telja tillöguna nauðsynlegt skref í áttina að hagkvæmari húsnæðismarkaði, manneskjulegri leigumarkaði og meiri félagslegum stöðugleika. Að sjálfsögðu gerum við okkur grein fyrir því að þessi tillaga mun ekki leysa allan þann vanda sem við erum í og ekki eins og skot. Þetta eru hins vegar nauðsynleg fyrstu skref til að taka á þessum hlutum af einhverri alvöru og með varanlegum hætti.

Þó að það sé ekki hluti af þessum átta tillögum hlýtur maður að nefna fílinn í herberginu, sem er gjaldmiðillinn. Að sjálfsögðu er stærstu hindruninni ekki rutt úr vegi, en það eru háir vextir og fjármagnskostnaður sem fylgir íslenskri örmynt. Sú staðreynd að framleiðni á Íslandi er mikið lægri en á Norðurlöndunum á sama tíma og við búum við miklu hærra vaxtastig og meiri fjármagnskostnað er auðvitað ekkert annað en ávísun á enn meiri erfiðleika við uppbyggingu sjálfbærs húsnæðismarkaðar en þyrfti að vera.

Fyrsti liður tillögunnar snýr að startlánum að norskri fyrirmynd. Ungt fólk á sífellt erfiðara með að komast inn á húsnæðismarkað, en þeir erfiðleikar stafa fyrst og fremst af skorti á eigin fé. Leiguverð er of hátt og húsnæðisverð hækkar stöðugt umfram kaupmátt. Einu raunaðgerðir stjórnvalda síðustu ára sem snúa að aðstoð við kaup á fyrstu fasteign felast í að hægt sé að nýta séreignarsparnað skattfrjálst við íbúðarkaup. En þessar aðgerðir nýtast fyrst og fremst þeim sem hafa hærri tekjur. Startlán koma hins vegar þeim til aðstoðar sem eru að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaði og fá ekki lán annars staðar, auk þess sem þeim er ætlað að tryggja húsnæðisöryggi fyrir viðkvæma hópa. Þau koma tekjulágum fjölskyldum best, þeim sem eru með lágar en öruggar tekjur en geta ekki fengið nægjanleg lán hjá hefðbundnu bönkum. Þar að auki standa þau fjölskyldum til boða sem eiga erfitt með að mæta útgjöldum vegna húsnæðiskostnaðar í formi endurfjármögnunar.

Þetta er gert til að hjálpa fjölskyldum að vera áfram með fasta og örugga búsetu.

Lánin hafa reynst vel í Noregi þar sem sett voru skilyrði um hámarkskaupverð til að sporna við verðhækkunum og passa upp á að húsnæði væri ekki dýrara en svo að lántakendur réðu við afborganir til lengri tíma.

Í öðru lagi leggjum við enn og aftur til fjölgun hagkvæmra íbúða í samvinnu við verkalýðs- og sveitarfélögin til að koma stoðum undir manneskjulegri leigumarkað. Tekjulágir einstaklingar hafa verið utan garðs á húsnæðismarkaði frá því að verkamannabústaðakerfið var lagt niður. Það er hafið yfir vafa að ef verkamannabústaðakerfið hefði fengið að þróast áfram í stað þess að leggja það niður væru nú um 20.000 fleiri íbúðir í kerfinu í dag. Sá hópur sem mæta á ræður ekki við markaðinn en telst of tekjuhár fyrir félagslegt húsnæði sveitarfélaga. Nú hefur loksins fjármagn verið tryggt í stofnframlög til uppbyggingar 2.300 íbúða eftir margra ára baráttu. En það er bara ekki nóg, herra forseti. Þessi uppbygging þarf að vera miklu meiri og hraðari. Hér verður að byggja upp öruggari leigumarkað í félögum án hagnaðarsjónarmiða. Slík félög eiga hins vegar erfitt með að ná fótfestu vegna fjármögnunarvanda en eru samt sem áður mjög mikilvægur hluti af húsnæðiskerfi nágrannaþjóðanna. Við þurfum að stefna þangað.

Ljóst er að vinna þarf á uppsöfnuðum skorti á íbúðum. Það er langtímaverkefni en ekki átaksverkefni. Ríkisstjórnin verður í samstarfi við sveitarfélög, aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóði að bregðast við skorti á leiguíbúðum og tryggja nægt framboð. Þá er lykilatriðið að huga að því hvers konar íbúðir vantar á markaðinn, ekki síður en hversu margar, því að nú er fyrst og fremst þörf á minni og hagkvæmari íbúðum næstu árin, m.a. vegna breytinga á fjölskyldumynstri.

Aðkoma ríkisins er einfaldlega nauðsynleg til að leggja grunninn að traustum leigumarkaði og tryggja að mikil fjölgun íbúða á næstu árum verði hagkvæm fyrir samfélagið og nýtist í baráttunni gegn fátækt og ójöfnuði. Þess vegna er lagt til að á næstu árum verði ráðist í byggingu a.m.k. 5.000 leiguíbúða í samstarfi við aðila sem eru ekki í hagnaðarrekstri. Átak í þá veru kann að þurfa að vera tímabundið á einstökum svæðum en varanlegt á öðrum. Það getur lotið ólíkum lögmálum frá einu svæði til annars.

Í þriðja lagi verður að jafna ábyrgð sveitarfélaga hér á landi þegar kemur að framboði á félagslegu húsnæði. Byrðum vegna félagslegs húsnæðis er mjög misskipt milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík á hlutfallslega langmest af slíkum eignum, eða allt að átta sinnum meira en sveitarfélögin í kring. Sömu sögu er að segja um Akureyri en bærinn stendur sig mun betur en önnur sveitarfélög á landsbyggðinni.

Ég tel að eðlilegt hlutfall félagslegs húsnæðis gæti miðast við 5% af heildarfjölda íbúða. Ljóst er að mörg sveitarfélög uppfylla ekki það hlutfall og því þurfa efnaminni fjölskyldur oft að leita annað eftir úrlausn sinna mála. Þar þurfa viðtökusveitarfélög að borga brúsann. Gleymum því ekki að sveitarfélög hafa mjög takmarkaða möguleika til að afla sér tekna. Með því að gera einstökum sveitarfélögum kleift að koma sér hjá allri þjónustu sem ætti að vera sjálfsögð og eðlileg, og leggja hana á herðar öðrum er verið að skekkja samkeppnisstöðu sveitarfélaga.

Þá er auðvitað ónefnd mannvonskan sem felst í því að ýta fólki óbeint burt úr sveitarfélögum og yfir á nágrannasveitarfélögin.

Í fjórða lagi verða húsnæðis- og vaxtabætur að fylgja betur verðlagsþróun. Þótt hækkun á húsnæðis- og vaxtabótum leysi ekki ein og sér húsnæðisvandann verða húsnæðisbætur og aðrar tilfærslur að haldast betur í hendur við launaþróun til að koma í veg fyrir að lægri tekjuhópar dragist aftur úr með tilheyrandi ójöfnuði.

Í fimmta lagi er gríðarlega mikilvægt að lækka byggingarkostnað hér á landi, auka framleiðni t.d. með því að auðvelda eininga- og raðsmíði. Því er lagt til að byggingarreglugerðin verði einfölduð til muna. Með einungis smávægilegum breytingum á byggingarreglugerðinni er hægt að einfalda og aðlaga kröfurnar betur að reglugerðum annars staðar á Norðurlöndum. Þekktar erlendar aðferðir stoppa vegna regluverksins hér þrátt fyrir vilja yfirvalda. Af hverju erum við alltaf að finna upp hjólið þegar hægt er að notast við staðlaðar lausnir? Aðrar þjóðir hafa sýnt að hagræði af nútímalegum byggingaraðferðum í langan tíma er vel hægt að viðhafa án þess að slaka nokkuð á gæðum í byggingum.

Breytingarnar ættu að taka mið af því að auka framleiðni í byggingariðnaði á Íslandi, en slíkt myndi jafnframt greiða fyrir möguleikum til að gera einingar- og raðsmíðar hagkvæmari kost.

Að lokum þarf líka að leggja áherslu á að gera stjórnsýslu byggingar- og skipulagsmála miklu skilvirkari en nú er og samræma milli ólíkra embætta í landinu.

Í sjötta lagi leggjum við til að búa til hvata til langtímaleigu í stað skammtímaleigu. Til að auka framboð á íbúðum í langtímaleigu viljum við ívilna þeim sem leigja út til raunverulegrar búsetu og hafa eina aukaíbúð skattfrjálst. Það er svo háð ákveðnum skilyrðum sem talað er um í þingsályktunartillögunni.

Í áttunda lagi leggjum við til að breyta lögum um húsnæðisbætur með það að markmiði að ungt fólk og öryrkjar sem deila húsnæði geti öðlast rétt á húsnæðisbótum. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir hefur lagt fram sérstakt frumvarp um þetta efni sem ég hvet þingmenn til að kynna sér.

Með þeim nauðsynlegu úrbótum sem ég hef nefnt hér tökum við markvisst skref í áttina að heilbrigðum húsnæðis- og leigumarkaði til framtíðar, skref sem þarf að taka til að berjast gegn fátækt í landinu, en að sjálfsögðu líka til þess að tryggja öllum almenningi þau sjálfsögðu mannréttindi sem öruggt húsnæði er.

Ég skora því á hv. þingmenn að taka vel í þessar tillögur svo við getum komið á móts við fólk sem ekki fær notið ávaxtanna af hagsveiflunni og fólk sem setið hefur eftir. Við skuldum í rauninni leigjendum og ungu fólki sem ræður ekki við útborgun til að kaupa sína fyrstu íbúð miklu betri úrræði.

Hér er ekki um neitt flokkspólitískt mál að ræða. Öruggt húsnæði er jafn sjálfsagður hlutur og fæði, klæði, menntun og góð heilbrigðisþjónusta. Það hlýtur að vera hægt að aðlaga þessar tillögur að vilja allra flokka.