149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka spurninguna. Það hefur nefnilega töluvert verið rætt um einföldun byggingarreglugerðarinnar hér á þingi og allt of mikið af þeirri umræðu hefur einmitt farið í umræðu um hvernig hægt er að klippa út alla aukahluti, gera hlutina smærri og snollaða, svo ég noti ljóta íslensku. Það er vissulega alveg í góðu lagi að gera mönnum kleift að byggja litlar íbúðir, en hér er ekki verið að tala um að við förum frá þessari algildu hönnun þar sem gengið er út frá aðgengi fyrir alla. Það er líka þannig á Norðurlöndunum, en við ættum að geta aðlagað okkur að því sem gildir þar.

Hér er ég að tala um þætti sem hafa ekkert verið ræddir en eru alveg himinhrópandi, eins og t.d. að það skuli vera önnur krafa um lofthæð á Íslandi en í Svíþjóð. Hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega að ef einstaklingur ætlar að byggja 30–40 m2 íbúða fjölbýlishús á Íslandi og ætlar að kaupa sig inn í framleiðslu hjá fyrirtæki sem framleiðir miðað við aðrar aðstæður, þá þarf að fara að sérútbúa þær einingar fyrir Ísland. Það mun alltaf gera þær kannski 15, 20, 30% dýrari, þannig að þetta er óhagkvæmt. Við styðjumst að svo miklu leyti við Norðurlöndin að við ættum í rauninni að geta treyst því að kröfur sem þar eru gerðar séu eitthvað sem við getum sætt okkur við.

Þar fyrir utan má gera miklu stærri og róttækari breytingar á byggingarreglugerðinni. Hér á Íslandi er hún forskriftarreglugerð. Það er t.d. sagt nákvæmlega fyrir um hvernig íbúðir eiga að vera, hversu stórar, litlar, breiðar og allt það, á meðan norræna reglugerðin er markmiðsdrifin, þar er talað um gæði, um lýsingu, um fegurð og annað. Síðan er það auðvitað hönnuðanna og verktakanna að sannfæra byggingaryfirvöld um að verið sé að uppfylla kröfurnar. Miklu skynsamlegri nálgun.