149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég nefndi Reykjavík er bæði að ég skil auðvitað fyrr en skellur í tönnum og kann að lesa á milli línanna og einnig af því ég er sérstakur áhugamaður um bæði ræður hv. þingmanns og les greinar hans í Morgunblaðinu. Ég þóttist því skilja af samhenginu að hann gæti verið að ræða um höfuðborgina. Það er ástæðan.

Auðvitað er allt í lagi að hlusta á fólk og ég veit að ný könnun sem Íbúðalánasjóður gerði sýnir að 92% fólks á leigumarkaði er óánægt með að vera á leigumarkaði en það er líka hægt að spyrja tíu manna hóp sem gengur um á splunkunýjum gúmmístígvélum í blautu veðri og aðra sem eru á götóttum og svörin verða þannig að þeir sem eru á heilu gúmmístígvélum munu vera ánægðir með þau en hinir ekki.

Þegar menn tefla fram svona könnun þarf nefnilega að skoða hvernig viðhorf fólks til leigumarkaðar er í Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Þá kemur í ljós að það er almenn ánægja, þar er kerfið gott. Af því að ég gef mér að við séum sammála um að fólk hugsi eins á Raufarhöfn og í Rúanda og hafi sömu þarfir geri ég ráð fyrir því að gott væri … (ÓBK: En þú vilt að … ) — nei, ef leigumarkaðurinn væri góður væri ánægjan meiri.

Ég talaði einmitt um það, og hef alltaf gert, að jafnræði ætti að vera milli þess að geta búið á öruggum leigumarkaði og geta keypt sér íbúð. Ég talaði um að hið opinbera hefði skyldum að gegna en einkaframtakið ætti líka að fá að byggja.

Ungt fólk í dag er allt öðruvísi en þegar við tveir vorum ungir (ÓBK: Það er ekki langt síðan.) og dreymdi um að búa í úthverfi í stóru húsi með bílskúr. Ungt fólk er hreyfanlegra í dag, það vill ekki festa sig.

Við skulum bara gera hvort tveggja, hv. þm. Óli Björn Kárason, og við skulum gera það saman.