149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

EES-samningurinn.

[15:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þriðji orkupakkinn hefur verið til umræðu undanfarið. Samkvæmt kynningu á honum frá þeim sem best þekkja til mun innleiðing hans ekki hafa mikil áhrif hér á landi. Þó hafa sumir haft uppi stór orð um að heilu atvinnugreinarnar muni leggjast niður við innleiðinguna.

Þessi umræða er satt best að segja afar ruglingsleg. Hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma í síðustu viku, þegar hæstv. ráðherrann var spurð um þriðja orkupakkann, með leyfi forseta:

„Ég vil líka að fram komi að það er vandamál við málið að ekki eru margir sem berjast fyrir því. Ástæðan fyrir því að erfitt er að berjast fyrir því er að það skiptir ekki svo miklu máli. Á endanum snýst þetta um EES-samninginn. Ef menn ætla að fara í ferðalag og segja að þeir ætli ekki að innleiða þetta hefur það áhrif á EES-samninginn. Þá þurfa menn að vera tilbúnir í þann leiðangur og ég er ekki að segja að ég sé ekki tilbúin í hann.“

Þetta sagði hæstv. ráðherra í síðustu viku.

Ef ég skil rétt er hæstv. ráðherra að segja að þriðji orkupakkinn skipti ekki svo miklu máli fyrir okkur Íslendinga en ef við innleiðum hann ekki sé það það sama og uppsögn á EES-samningnum og að hæstv. ráðherra sé ekki að segja að hún sé ekki tilbúin í uppsögn EES-samningsins.

En vill ráðherrann ganga úr EES fyrir orkupakka sem ekki skiptir svo miklu máli fyrir Ísland, eins og hún bendir á sjálf? Það væru sannarlega stór tíðindi og slæm ef þessi ríkisstjórn ætlar að rifta þessum allra besta samningi sem Íslendingar hafa gert, og það fyrir mál sem snertir okkur ekki með afgerandi hætti.

Getur hæstv. ráðherrann svarað því skýrt hér og nú að ekki standi til að rifta (Forseti hringir.) EES-samningnum?