149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

EES-samningurinn.

[15:13]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég hef ekki átt samtöl við kollega minn í Noregi eða aðra ráðherra þar um þennan orkupakka, ég veit ekki hvernig það er með aðra ráðherra. Ég kom inn á það í mínu fyrra svari hvort búið væri að greina hvað gerðist ef við innleiddum ekki þriðja orkupakkann. Það er enginn sem getur svarað því fyrir víst hvaða afleiðingar það hefði ef við innleiddum ekki þennan pakka.

En ég verð að fá að taka undir með hv. þingmanni að það er margt í umræðu um þetta mál sem er ansi öfugsnúið. Menn tala eins og fjórfrelsi EES-samningsins um orku muni einhvern veginn taka gildi við innleiðingu þriðja orkupakkans. Það gerðist fyrir mörgum árum síðan, í fyrsta orkupakkanum, þegar allt aðrir menn voru hér við stjórnvölinn. Það eru meginbreytingarnar á þessum markaði, samkeppnisreglur Evrópu. Menn tala eins og þær muni taka gildi ef og þegar þriðji orkupakkinn verði innleiddur. Þær hafa líka verið í gildi hér í fjöldamörg ár, frá upphafi, þannig að það mun heldur ekki breytast.

Ríkisstyrkjareglur Evrópu um hvort við megum niðurgreiða rafmagn til álvera eða annars er sömuleiðis nokkuð sem hefur verið við lýði hér í mörg ár. Landsvirkjun hefur þurft (Forseti hringir.) að senda samninga sína til útlanda í fjöldamörg ár. Þetta eru þættir sem breyta engu um hvort við innleiðum þriðja orkupakkann eða ekki, en það þarf auðvitað að liggja skýrt fyrir. Það er hægt að gagnrýna málið en menn verða samt að hafa staðreyndirnar á hreinu.