149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

lækkun framlaga til öryrkja í fjárlögum.

[15:32]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég er með svipað erindi og kollegar mínir á undan mér. Í gær voru kynntar breytingartillögur meiri hluta við fjárlög. Meðal þeirra er sú fyrirhugaða breyting að draga úr hækkun framlags til örorkulífeyrisþega, úr 4 milljörðum í 2,9 milljarða. Um er að ræða lækkun á fjárveitingum upp á 1,1 milljarð kr.

Hv. formaður fjárlaganefndar sagði í viðtali við RÚV að um væri að ræða aðgerðir í aðhaldsskyni til að bregðast við kólnun hagkerfisins. Í morgun sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hins vegar í viðtali við mbl.is að sú skýring væri fullkominn misskilningur og að um væri að ræða lækkun á framlögum vegna kerfisbreytinga sem væru ekki tilbúnar.

Nokkuð er því á reiki um ástæðuna fyrir því að verið sé að draga úr fjárframlögum til örorkulífeyrisþega um rúman 1 milljarð.

Ríkisstjórn hæstv. ráðherra var búin að gefa Öryrkjabandalagi Íslands vilyrði fyrir því að þeir fjármunir færu í að bæta efnahagslega stöðu félagsmanna þeirra. Þá hefur hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, bæði á fundum með ÖBÍ og í pontu Alþingis, einnig gefið vilyrði til Öryrkjabandalagsins um að sú upphæð, 4 milljarðar, gæti farið í að draga úr krónu á móti krónu skerðingum.

Öryrkjabandalagið hafði því fulla ástæðu fyrr á þessu ári til að vera í góðri trú um að hægt yrði að ráðstafa þessum 4 milljörðum til að draga úr skerðingum örorkulífeyrisþega.

Forseti. Örorkulífeyrisþegar hafa setið á hakanum þegar kemur að kaupmáttaraukningu og kjarabótum. Ráðherra virðist af svörum sínum áðan að dæma ekki vera sammála því að margir öryrkjar lifi í fátækt, en margir öryrkjar ná ekki endum saman þar sem bætur ná varla upp í lágmarkslaun, leigumarkaðurinn hefur hækkað upp úr öllu valdi og það er almennt orðið mjög dýrt að lifa í þessu landi. Launin þeirra duga ekki.

Króna á móti krónu skerðing festir öryrkja í fátæktargildru og hamlar m.a. þeim sem geta frá því að vinna og bæta kjör sín. Telur ráðherra ekki mikilvægt að auka efnahagslegt frelsi þessa hóps?

Forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra í raun mjög einfaldrar spurningar, já- eða nei-spurningar: Er fólkið í landinu mikilvæg auðlind að fjárfesta í? Já eða nei?