149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

menntun leiðsögumanna og lögverndun starfsheitis þeirra.

[11:03]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt, eins og hv. þingmaður nefnir, að þetta hefur áður komist til tals á þinginu og ég hef fengið um það fyrirspurnir, mál lögð fram o.s.frv. Þetta kemur sömuleiðis reglulega upp í umræðunni.

Það sem mér finnst skipta mestu máli er að við spyrjum okkur um markmiðið, þ.e. hvernig við náum markmiðum okkar með sem bestum hætti. Þar sameinast sjónarmið um mikilvægi löggildingar og svo frekar mín sýn í því, þ.e. ég hef áður svarað því til að ég er ekki tilbúin að fallast á að eina leiðin til að ná markmiðum um að gæta að öryggi ferðamanna, að auka gæði íslenskrar ferðaþjónustu og tryggja þekkingu á staðháttum og veðurfari og öðru sé löggilding.

Við höfum sett á fót hæfnisetur sem er m.a. og aðallega til að auka gæði og þekkingu og það byggir á Vegvísi. Við fórum í vettvangsferð til Nýja-Sjálands á síðasta ári og þar er miðstöð ævintýraferðamennsku. Ekki einu sinni þar er gerð krafa um tiltekna menntun leiðsögumanna eftir því sem okkur var sagt í ferðinni. Krafan er fyrst og fremst á fyrirtækin, þ.e. að þau fá skráningu í sinni tegund ævintýraferðamennsku, hafi öryggisáætlanir og fylgi þeim eftir. Það er töluvert eftirlit með því.

Við settum inn í lögin sem þingið setti um Ferðamálastofu að fyrirtækjum beri að setja sér öryggisáætlanir. Hérna þyrfti að gera greinarmun á almennri leiðsögn, þ.e. almennum leiðsögumönnum, gönguleiðsögumönnum og fjallaleiðsögumönnum. Þá eru væntanlega mjög mismunandi kröfur gerðar til þeirra. Eins og ég segi er krafan í Nýja-Sjálandi sett á fyrirtækin, að þau þurfi að passa að uppfylla þær gæðakröfur sem á þau eru sett og vera með öryggisáætlanir. Jöklaleiðsögn krefst auðvitað miklu meiri varkárni og almennrar þekkingar á staðháttum, veðurfari og slíku en almenn leiðsögn. (Forseti hringir.) Ég myndi segja að það væri nokkuð sem við ættum sérstaklega að skoða og ég er mjög áfram um það, bæði til að auka öryggi og gæði, að við setjum okkur sérstakar reglur um það.

En löggildingin er í mínum huga ekki endilega eina svarið.