149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

menntun leiðsögumanna og lögverndun starfsheitis þeirra.

[11:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er kannski ekki spurning um að löggildingin sé eina úrræðið, hún nefndi ýmis önnur atriði og því ber að fagna. Ég held að það væri mjög gagnlegt ef ráðherra léti meira frá sér fara um þau atriði sem getið var um í hennar ágætu ræðu.

Þessi tengt, talandi um gæði og öryggi, þá vaknar spurningin um að gerðar verði auknar kröfur um íslenska leiðsögumenn í ferðum, nánar tilteknum ferðum. Ráðherra vék að nokkrum þáttum í því sambandi reyndar. Ég hef sérstaklega í huga ferðir þar sem reynir á þekkingu á íslenskum aðstæðum, torfærum leiðum, veðurfari og náttúrlega þekkingu á íslenskri menningu, sögu og náttúru, allt í víðtækum skilningi. Það er ekki nóg að hér komi einhver ferðamannahópur og einn af þeim útlendingum sé tekinn og dubbaður upp sem leiðsögumaður. (Forseti hringir.) Spurningin er um að leiðsögumaðurinn sé íslenskur með gæði og öryggi fyrir augum.