149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

raddbeiting kennara.

511. mál
[16:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og að koma hingað og ræða málefni kennara. Kennarar eru undirstaða skólakerfisins og eitt af stóru verkefnum þess ráðherra sem hér stendur er að bæta starfsumhverfi kennara í víðum skilningi og auka nýliðun í stéttinni. Til upplýsingar má geta þess að á morgun mun ég kynna aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að efla kennaramenntun og bæta starfsumhverfi kennara.

Nú þegar er lögð áhersla á rödd og raddbeitingu og æfingar fyrir talfæri í leik- og grunnskólanámi við menntavísindasvið Háskóla Íslands og í Háskólanum á Akureyri með sérþjálfuðum kennurum. Jafnframt er raddbeiting kennd á námskeiði sem ætlað er tómstundafræðingum, uppeldis- og menntunarfræðingum og þroskaþjálfum. Einnig er lögð áhersla á raddvernd og -þjálfun á þessum námskeiðum. Í núverandi skipulagi fá íþróttakennaranemar þjálfun í raddbeitingu í grunnnáminu, fjórar kennslustundir. Í nýju og breyttu skipulagi meistaranámsins, sem tekur gildi með næstu kennsluskrá, munu nemendur síðan fá enn frekar markvissa raddþjálfun á fimmta námsári kennaranámsins. Tímasetningin er ákvörðuð út frá því að á þessum tíma fara kennaranemar í langt vettvangsnám. Áætlun um þessa þjálfun er í vinnslu og byggir m.a. á reynslu og endurgjöf frá nemendum okkar í vettvangsnámi þar sem þeir hafa fengið reynslu af því að starfa í íþróttasal dag eftir dag.

Nemendur okkar sem fengið hafa þjálfun og kennslu í raddbeitingu hafa verið ánægðir og tala um gagnsemi þegar á vettvang sé komið. Af ofansögðu er ljóst að allir kennaranemar fá þjálfun og fræðslu í raddbeitingu. Til að efla fræðslu og þjálfun mætti bjóða upp á fleiri valnámskeið í raddbeitingu, raddvernd og framsögu fyrir alla nemendur menntavísindasviðs í grunn- og meistaranámi.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um magnarakerfi og hvort það ætti að vera staðalbúnaður í kennslustofu er það mat mitt að stíga þurfi varlega til jarðar, þrátt fyrir að ég telji að það mjög áhugavert sem fram kemur í máli Valdísar Jónsdóttur talmeinafræðings, þ.e. að við leggjum meiri áherslu á kennslu í rödd og raddbeitingu í námi kennaranema.

En af því að kennsluhættir hafa verið að breytast umtalsvert á síðustu árum eða áratugum tel ég að við eigum að hafa þetta sífellt til endurskoðunar, vegna þess að við heyrum líka af börnum sem eiga erfitt með að vera í opnum rýmum vegna þess að þau telja að það séu hreinlega of mikil læti og vilja vera í öðru rými. Þarna þarf að sjálfsögðu að fara saman sú verkfærakista sem kennarar hafa til umráða og að við hugum að því hvernig börnunum okkar hentar best að læra, að námsumhverfi sé aðlaðandi og að það sé ákveðin ró en líka örvun.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég fagna því að við séum að ræða starfsumhverfi kennara út frá raddbeitingu og mikilvægi hennar. Það er mitt mat að við eigum að ræða málefni menntakerfisins oftar á Alþingi vegna þess að hér erum við að leggja grunninn að framtíðinni.

Hér áðan ræddum við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Það er í mínum huga alveg ljóst að svarið við öllum þessum lykiláskorunum, eða þeim viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir, er og verður menntun og aftur menntun og að leggja áherslu á læsi í víðasta skilningi. Þá komum við enn og aftur að mikilvægi kennarans. Það er kennarinn sem leggja mun grunninn að öllum þeim störfum sem við munum móta til framtíðar. Það verður sameiginlegt hlutverk okkar allra hér að hlúa enn frekar að starfsumhverfi kennara.