149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[16:15]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við Píratar styðjum þetta mál vegna þess að þetta er skref í rétta átt þótt það sé mjög lítið. Mér finnst rétt og þarft að segja hér að það er óþolandi hversu litlu fjármagni er varið í að minnka þær krónu á móti krónu skerðingar sem allir flokkar töluðu um að afnema alveg fyrir seinustu kosningar.

Það er ámælisvert að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks við vinnslu frumvarpsins. Þau hafa ekki fengið aðkomu að því hvernig afnám krónu á móti krónu skerðing er útfærð. Þetta er lítið fjármagn, 2,5 milljarðar, og það væri hægt að gera mun betur og er þarft að gera betur.

Að sjálfsögðu styð ég það litla skref sem verið er að taka. Vinnubrögðin við þetta eru ekki góð og ég hvet ráðherra til að gera betur næst og hafa samráð við þá aðila sem málið snýst um.