149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil við 3. umr. hnykkja sérstaklega á mikilvægi þess sem kemur fram í nefndaráliti á milli 2. og 3. umr. þar sem það er rammað inn að gildistöku laganna sé frestað til 1. janúar 2020. Þar inni er atriði sem ég held að sé mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra leggi sig fram um að sinna þannig að vel sé. Það er samráð við hagsmunaaðila, hvort sem þar er um að ræða aðila í matvælaframleiðslu eða þá sem eru einhvers staðar í heilbrigðisumhverfinu, hvort sem það eru læknar, sýklafræðingar eða hver svo sem stéttin er. Þeir hópar verði kallaðir að borðinu og fái tækifæri til að fylgjast með framgöngu málsins á öllum stigum og sérstaklega með áherslu á innleiðingu svokallaðra mótvægisaðgerða sem er, ef ég man rétt, 17 eða 18 atriða pakki þar sem ætlanin er að reyna að fyrirbyggja eins og kostur er með þeim leiðum sem þar er boðið upp á að sýkingarhætta og það að sjúkdómar og ónæmar sýklalyfjaveirur berist hingað til lands vegna afnáms frystiskyldunnar. Sem ég verð að viðurkenna að ég er enn bjartsýnn á að menn finni leið til að afturkalla á haustþingi. Þó að frumvarpið geri ráð fyrir að gildistakan verði 1. janúar 2020 er ég þess fullviss að þingflokkar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna muni áfram í gegnum sumarið og haustið leita allra leiða til að vinda ofan af þeirri ákvörðun sem hér er römmuð inn hvað það varðar að opna fyrir innflutning á ófrystu kjöti.

Ég vil ítreka mikilvægi þess að hagsmunaaðilar séu kallaðir að borðinu og að á sjónarmið þeirra verði hlustað, sérstaklega ef svo fer að einhver þeirra atriða sem ætlast er til að ná fram með aðgerðaáætluninni séu annaðhvort ekki að gera sitt gagn eða ekki hafi tekist að innleiða og koma í framkvæmd á þeim tíma sem menn ætluðu sér.