149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að það sé nákvæmlega sá hugsunarháttur að við gerum sjálf til okkar kröfur, hvort sem er á sviði landbúnaðarmála eða á öðrum sviðum, sem er mikilvægur. Ég var að tala um fiskeldi áðan. Við þurfum sjálf að gera til okkar kröfur, hvort sem er á sviði umhverfisverndar eða annarra þátta sem tengjast atvinnugreininni. Þannig verðum við fremst í flokki.

Þegar ég segi að ég og við í Viðreisn og fleiri sjáum ótal tækifæri í landbúnaðinum er það einfaldlega af því að við erum með þannig afurð og landið okkar styður við þá ímynd okkar að við skilum til neytenda umhverfisvænni, góðri vöru, hvort sem það er lambakjöt, grænmeti eða önnur framleiðsla innan landbúnaðarins. Þess vegna verðum við að halda áfram að styðja við íslenska landbúnaðinn. Ég geri hins vegar líka kröfur til íslensks landbúnaðar. Hann verður og er sem betur fer að feta sig inn í annað umhverfi, að hluta til með þessu máli. En við þurfum auðvitað líka að veita líka íslenskum landbúnaði ákveðið svigrúm í tíma og svigrúm til að fara með réttum hætti inn í samkeppnina. Ég skil alveg ótta bændaforystunnar um að ekki sé hægt að fara í einu vetfangi inn í samkeppni en við megum samt ekki gefa afslátt af þeirri kröfu, fyrir framleiðsluna sjálfa, fyrir bændur og fyrir neytendur líka, að við förum inn í heilbrigt viðskiptaumhverfi sem tengist landbúnaði.

Af því að ég er að tala um viðskiptaumhverfið og það eru margir sem reyna að etja saman bændum og neytendum vil ég undirstrika að þeir eru alltaf í mínum huga hagsmunaaðilar sem eiga ríka hagsmuni saman. Við verðum að þora að segja: Já, við ætlum að halda áfram að styðja við íslenskan landbúnað. Ég er ófeimin við að segja að ég sé jafnvel tilbúin að styðja hann meira, svo lengi sem við höfum gegnsæjar reglur, styrkjum bændur en setjum ekki kraftinn (Forseti hringir.) fyrst og fremst í kerfið sjálft til að viðhalda milliliðum. Ég held að þetta þurfi að fara meira til bænda og minna í milliliðina og kerfið sjálft.