149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki mikið gert að því hvernig hlutirnir hljóma í höfði hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður leggur greinilega sinn skilning í lífið og tilveruna og það sem hann heyrir en hann getur ekki ætlast til þess að allir aðrir lagi sig að hugarheimi hans og tipli á tánum svoleiðis að hann fái ekki einhvern undarlegan skilning á því sem menn eru að segja. Hv. þingmaður kom hingað og sagðist vera að gæta hagsmuna Íslands eins og hann telur að þeir séu best varðir. Ekki dettur mér í hug að saka hv. þingmann um að vera andstæðingur útlendinga þó að hann komi hingað og viðurkenni að hann vilji gæta hagsmuna Íslands. Getum við þá ekki verið sammála um að við séum ekki sammála um hvernig það verði best gert? Það sem ég hef verið að benda á hér er að allar þjóðir, m.a. í viðskiptasamböndum, verja hagsmuni sína og við eigum ekkert að vera feimin við að segja að við viljum gera það líka. Allar þjóðir verja meira og minna sína atvinnuvegi og við eigum ekki að vera feimin við að segja að við viljum verja íslenska atvinnuvegi. Í því felst ekki að menn séu á móti viðskiptum milli þjóða.

Hv. þingmaður nefndi frjáls viðskipti. Viðskipti eru reyndar ekkert almennt alveg frjáls á milli ríkja en menn semja sín á milli og annar aðilinn gefur eitthvað og hinn annað á móti. Viðskipti hafa reyndar ekki verið eins frjáls og þau voru árið 1913 þegar frelsi í viðskiptum milli landa náði hámarki. Þau hafa aldrei náð sama stigi og þá, en menn gera samninga og Ísland hefur gert fleiri samninga en líklega nokkurt annað land og er með frjálsari viðskipti við önnur lönd en flest önnur ríki, miklu frjálsari viðskipti en til að mynda Evrópusambandið. En við hljótum engu að síður að vilja (Forseti hringir.) verja þá hagsmuni sem við teljum að þeir samningar tryggi okkur og það var afstaða Íslands, íslenska ríkisins, að okkur bæri ekki að innleiða þau lög sem ríkisstjórnin er nú að reyna að koma í gegnum þingið.