149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg undrandi á því hvað hv. þingmaður er hræddur við útlendinga. (Gripið fram í.) Nú er einhver búinn að segja það. Er það þá orðinn sannleikur? Þetta eru náttúrlega eintóm dellurök sem hér eru fram færð. Það að menn verji hagsmuni sína í viðskiptum og að hagsmunir fara ekki endilega alltaf saman þýðir ekki að menn séu á móti viðskiptum við útlönd eða á móti útlendingum yfir höfuð. Hv. þingmaður nefndi áðan að í ljósi þess að Hæstiréttur hefði dæmt íslenskum aðilum í vil og þeir fengju þessa 3 milljarða eða hvað það nú er í skaðabætur væri verið að verja íslenska hagsmuni. Gott og vel, ákveðna íslenska hagsmuni. (Gripið fram í: Já.) Ég hugsa reyndar að hv. þingmaður og félagar hans og margir í öðrum flokkum, a.m.k. stjórnarandstöðunnar, myndu kalla það sérhagsmuni, íslenska sérhagsmuni. Hverjir eru það sem fengu þessar bætur? Eru það ekki fyrst og fremst íslenskir heildsalar? Ef ég þarf að velja á milli þess sem stjórnmálamaður að verja annaðhvort hagsmuni — það er ekki, eins og hv. þingmaður virðist halda, að hagsmunir allra fari alltaf saman — (Gripið fram í.) ef ég þarf að verja annaðhvort fyrst og fremst hagsmuni íslenskra heildsala eða fyrst og fremst hagsmuni íslenskra bænda og landbúnaðarframleiðenda og matvælaframleiðenda tel ég mikilvægara fyrir samfélagið að leggja áherslu á að verja hagsmuni bænda en að verja hagsmuni heildsala og fagna því sérstaklega að það hafi verið íslenskir heildsalar sem hafi fengið bætur á grundvelli EES-samningsins. Fyrir hvað? Fyrir að hafa ekki fengið að hagnast nógu mikið með því að ganga á íslenska matvælaframleiðslu. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Það hlýtur að vera augljóst að jafnvel þó að menn geti almennt tekið undir það og fallist á það, líklega allir á Alþingi, að viðskipti séu almennt af hinu góða verði menn að verja hagsmuni sína þegar kemur að því að gera samninga (Forseti hringir.) og að hagsmunir fara ekki endilega alltaf saman í öllum málum en þá leita menn leiða til þess að komast að niðurstöðu sem allir aðilar geta vel við unað.