150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[13:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vildi ég inna hv. þingmann aðeins nánar eftir því hvernig hann sjái fyrir sér framlagningu þessa frumvarps í samhengi við þá vinnu sem á sér stað af hálfu formanna stjórnmálaflokkanna. Ég heyrði að hv. þingmaður kom inn á hana áðan og auðvitað vitum við að flokkar nálgast þá vinnu með mismunandi hætti. En ef hægt er að skilja hv. þingmann með þeim hætti að hann leggi ofuráherslu á að málið fari í þann farveg sem þetta frumvarp og framlagning þess felur í sér myndi maður segja að hin vinnan ætti að vera óþörf. Eða hvað? Getur hv. þingmaður aðeins skýrt þetta nánar fyrir mér?

Hitt er annað að ég geri athugasemdir við ýmislegt í yfirferð hans um sögulegan bakgrunn málsins. Mér finnst nauðsynlegt að koma því á framfæri að sá ferill sem hann er að vísa í og endaði í því plaggi sem hér hefur verið endurprentað og dreift í þinginu var náttúrlega gríðarlega umdeildur, ekki bara hér innan þings heldur einnig úti í samfélaginu, og mjög mikil gagnrýni kom fram á þær tillögur sem þarna er að finna. Ágreiningur var bæði um málsmeðferð og um niðurstöðuna. Mér fannst líka þurfa að hafa í huga að það hefur allmikið gerst á síðustu árum frá því að þessar tillögur voru síðast til meðferðar hér á Alþingi. Það að koma með plaggið óbreytt frá vetrinum 2012–2013 tekur nú kannski ekki beinlínis mið af því að hér hefur ýmislegt gerst. Hér hefur t.d. þrisvar sinnum verið kosið til Alþingis, þrír mismunandi meiri hlutar hafa komið að málum og þess háttar. Þannig að það að ætla að skrúfa tímann einhvern veginn til baka er svolítið óraunsæi að mínu mati.