150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að við eru með heildstæða stjórnarskrá og við getum nálgast breytingar á henni þannig að við bætum því við sem við teljum sérstaka þörf á eða breytum því sem við teljum að sé sérstök þörf á. Það er alveg óþarfi að gera eins og stjórnlagaráð gerði, að taka hverja einustu grein núgildandi stjórnarskrár, 79 greinar, og breyta þeim, í sumum atriðum mikið, í sumum atriðum lítið, og bæta svo við 35 nýjum greinum. Það er dálítið mikil breyting fólgin í því. Það er alveg rétt að það hefur verið mjög umdeilt hvort það ætti að fara út í það. Það eru ekki bara þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa lagst gegn því. Ég vek athygli á því að ekki á kjörtímabilinu 2009–2013 og ekki á tímabilinu 2013–2016 eða 2016–2017 eða á núgildandi kjörtímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn meirihlutastöðu hér í þinginu. Þannig að það er alveg ljóst að á þinglegum vettvangi dugar andstaða Sjálfstæðisflokksins ekki til.

Kannski er allt í lagi að geta þess hér, þar sem hv. þingmaður minntist á meint málþóf veturinn 2012–2013, sem Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, vitnaði í í grein, líklega á laugardaginn, og ágætur stjórnlagaráðsmaður, Illugi Jökulsson, kallaði „nærri vitfirringslegt málfþóf“. Menn hafa haft ýmis orð um það. Hvað ætli það málþóf hafi staðið í marga klukkutíma? Í 1. og 2. umr. í 40 klukkutíma. Það næði ekki inn á topp 15 listann af málþófsmálum síðustu ára hér í þinginu. Það var nú öll vitfirringin í því máli. Svo við höfum það bara á hreinu, það var ekkert um slíkt að ræða, þó að andstaðan væri mikil hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og þingmönnum Framsóknarflokksins og eiginlega meðal allra fræðimanna sem um þetta fjölluðu og skiluðu álitsgerðum. Það var gagnrýni úr ótalmörgum áttum og ég held að það hafi ekki síst verið þess vegna sem þáverandi ríkisstjórnarflokkar, Vinstri grænir og Samfylking, guggnuðu á því að reyna að keyra þetta mál í gegn 2012–2013.