150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:18]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Það er ekkert nýtt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu andstæðingar nýrrar stjórnarskrár og þessa frumvarps sem við leggjum hér fram. Varðandi það hvort tekið hafi verið tillit til allra athugasemda er það væntanlega ekki svo, enda sagði ég það ekki í ræðu minni. Ég sagði að tekið hefði verið tillit til málefnalegrar gagnrýni sem kom fram og væntanlega einhverra tillagna. En ef hv. þm. Brynjar Níelsson er með tillögur að breytingum þá situr hann í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hlýtur að vera rétti vettvangurinn fyrir hann til að koma áhyggjum sínum á framfæri í þeirri áframhaldandi vinnu sem fer að öllum líkindum fram í nefndinni, af því að ég vænti þess að þetta frumvarp fari til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það hefur gríðarlega mikil vinna farið í þetta plagg og hv. þingmaður hlýtur að vera sammála því. Ég vona það.

Ég spyr, þótt það sé ekki hefðin að spyrja þegar maður situr sjálfur fyrir svörum, hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því að ferlið við að skrifa nýja stjórnarskrá, með aðkomu þjóðarinnar og allri þeirri vinnu sem hefur farið fram hjá stjórnlagaráði og í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hjá nefnd sérfræðinga og öðrum þeim sem hafa komið að gerð plaggsins sem er til umræðu, sé ekki lýðræðislega en það ferli sem fór í gang þegar við tókum við stjórnarskrá frá Dönum.