150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:23]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að setja á langar tölur. Hv. þm. Logi Einarsson rakti mjög vel aðdraganda þessa máls og sögu þess og ég ætla ekki að endurtaka það sem hann sagði. Ég ætla bara að minna á að þessi vinna fór í gang eftir að hér hafði orðið hrun, ekki bara efnahagslegt hrun og ekki bara bankahrun, ekki bara fjármálalegt hrun heldur var líka um að ræða menningarlegt hrun og siðferðilegt sjálfsmyndarhrun hafði átt sér stað. Fólki þótti sem undirstöður samfélagsins hefðu brostið og að mjög brýnt væri að finna samfélaginu undirstöður að nýju. Þess vegna var farið af stað í þá margháttuðu og miklu vinnu sem hófst eins og við munum með þjóðfundum.

Þetta mál var lagt fram í fyrra, líka af þingflokki Pírata, og þá varð hér nokkur og ágæt umræða um málið. Ég minnist þess að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir gerði m.a. að umtalsefni, og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson líka, ef ég man rétt, 30. gr. núgildandi stjórnarskrár sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“

Ég endurtek: Samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til. Hvaða reglum? Hefur verið farið eftir einhverjum reglum hingað til um undanþágur sem aldrei hafa verið veittar? Hvernig á að veita undanþágur eftir reglum sem farið hefur verið eftir hingað til ef þær hafa aldrei verið notaðar? Þarna er ekki nóg með að forsetinn geti veitt hvar og hvenær sem er undanþágur frá lögum heldur getur hann falið öðrum stjórnvöldum að veita slíkar undanþágur.

Þessi grein hefur aldrei verið virkjuð og kannski er hún dauður bókstafur eins og við héldum líka um 26. gr. sem raunar var virkjuð af fyrrverandi forseta Íslands. Svona grein er hins vegar stórhættuleg ef í embætti forseta Íslands veldist valdasjúkur einstaklingur með einræðistilburði sem sæi þarna leið til að komast hjá því að fylgja lögum eða þá frámunalega veikur forseti en mjög valdagráðug ríkisstjórn sem léti þann forseta fela sér að veita slíkar heimildir til að veita undanþágu frá lögum samkvæmt reglum sem farið hefur verið eftir hingað til.

Þessi grein er náttúrlega dæmi um það hversu vönduð ríkjandi stjórnarskrá er. Hér er lagagrein sem er óljós og torskilin, mjög teygjanleg og túlkanleg. Hún varðar hreinlega grundvallarvald þeirra sem eiga að fara með völdin hér á landi og getur í höndum einhverra snúist þannig að það sé jafnvel hætta á einhvers konar gerræði. Ég held að þessi grein sé, og þess vegna geri ég hana að umtalsefni, ágætt dæmi um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir sem er ekki síst sá að ýmis ákvæði gildandi stjórnarskrár eru óljós, torræð og túlkanleg og hafa kannski leitt til þess stundum að lögmenn hafa getað túlkað lög af hugvitssemi og fimi sem hefur líka leitt til þess að það hefur verið erfitt að koma lögum yfir menn.

Stjórnarskráin nýja var unnin í löngu og góðu ferli og ég þarf ekki að minna þingheim á hvernig það fór fram. Þar var vandað til verka og unnið af heilindum og sáttfýsi á öllum stigum málsins fram undir það síðasta. En maður hafði engu að síður á tilfinningunni, eins og hefur raunar komið fram í umræðunni hér, að lögmönnum, lögspekingum, stjórnmálafræðingum og sumum alþingismönnum fyndist eins og hér væri kannski verið að hlutast til um þeirra mál. Það væri jafnvel verið að skipta sér af einhverju sem þeim einum kæmi við. Stjórnarskráin væri mál lögspekinga sem fást við að túlka hana og vinna með hana. En það er ekki svo, því miður. Stjórnarskrá verður að sjálfsögðu ekki búin til nema í miklu og nánu samráði við allt það fólk sem kann best til verka og það var líka gert. Hitt er þó algjört grundvallaratriði. Stjórnarskráin er ekki einkamál lögmanna og stjórnmálamanna. Hún varðar okkur öll. Stjórnarskráin snýst ekki bara um grundvöll samfélagsskipanarinnar heldur daglegt líf okkar allra og framtíð barnanna okkar. Þetta snýst um sjálfbærni, mannréttindi, lýðræði, valdið í samfélaginu. Þetta eru grunnlögin okkar allra.

Stjórnarskráin er aldrei alveg útrætt mál og allra síst með greinum eins og 30. gr. sem ég nefndi áðan. Stjórnarskráin er ekki háð náttúrulögmálum eða partur af þeim, hún er ekki eins og veðrið, fjöllin eða hafið. Hún er mannanna verk. Stjórnarskráin er ekki ytri aðstæður sem við höfum ekkert um að segja heldur er stjórnarskráin innri aðstæður samfélagsins sem við sjálf mótum saman. Það gerum við með því að gera sáttmála hvert við annað um ákveðnar grundvallarreglur í samskiptum okkar, grundvallarleikreglur í samfélaginu, grundvallarlög, enda heitir stjórnarskráin í nágrannalöndum okkar grunnlög, grundvallarlög. Hún er grundvöllurinn undir öllu, lifandi plagg.

Hver er nauðsyn á að breyta stjórnarskrá eða fá nýja stjórnarskrá? Margir spyrja sig þeirrar spurningar. Af hverju þurfum við að vera eitthvað að breyta þessu? Er þetta ekki bara ágætt eins og það er? Myndi ekki bara óvissa fylgja þessu? spyrja margir. Þá held ég að því sé til að svara að núgildandi stjórnarskrá fylgir óvissa. Manni finnst stundum þegar maður horfir á íslenskt samfélag í gegnum áratugina eins og það hafi stundum verið spunnið af fingrum fram af löggjafar- og framkvæmdarvaldi, það hafi verið „impróvíserað“ nánast dag frá degi af helstu valdamönnum sem hafa þá gripið til ýmiss konar lagaúrræða. Þessi nýja stjórnarskrá finnst mér vera viðleitni til að koma á meiri formfestu, meiri lögfestu í íslensku samfélagi sem ég tel fagnaðarefni.

Það hefur þráfaldlega komið fram hjá fræðimönnum að við lýðveldisstofnunina var almennt litið svo á meðal íslenskra ráðamanna að stjórnarskráin væri bráðabirgðaplagg og að hana yrði að endurskoða fyrr en síðar. Þeir skrifa um þetta hver af öðrum og það kom fram í umræðum á Alþingi. Einn þeirra fræðimanna sem hafa ritað um þetta og rakið þessa sögu vel er núverandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem starfaði á árum áður sem sagnfræðingur og skrifaði ágæta grein árið 2011 sem heitir „Tjaldað til einnar nætur“ og oft er vitnað til. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa, eins og ég gerði raunar í umræðum um málið í fyrra og ætla þá að endurtaka það, niðurlagsorð þeirrar ágætu greinar Guðna. Hann skrifar:

„Í skrifum um lýðveldisstjórnarskrána er stundum gert of lítið úr þeirri grundvallarstaðreynd að henni var aldrei ætlað að standa lengi í óbreyttri mynd. Málamiðlanir til bráðabirgða verða þannig að fyrirmyndarlausnum til framtíðar. Vera má að pólitísk viðhorf ráði einhverju um þetta. Sagan af aðdraganda lýðveldisstjórnarskrárinnar sýnir hins vegar svo ekki verður um villst að til urðu málamiðlanir sem áttu að vera tímabundnar. Þetta gildir ekki síst um ákvæði um skiptingu valds milli ráðamanna sem segja eitt en þýða annað í raun. Stjórnarskrár eiga að vera skýrar en þannig er bráðabirgðasmíðin frá 1944 ekki, enda hefur hún engum orðið fyrirmynd og engin áhrif haft annars staðar í heiminum.

Í aðdraganda lýðveldisstofnunar vildu ráðamenn á Alþingi réttilega stefna að einingu þjóðarinnar. Þeir vissu að samstaðan næðist ekki ef stjórnmálaflokkarnir tækjust á um nýja stjórnarskrá. Því var ákveðið að lögfesta lítt breytta stjórnarskrá til bráðabirgða en endurskoða hana svo við fyrsta tækifæri. Lýðveldið sem Íslendingar stofnuðu skyldi vara um aldur og ævi en stjórnarskráin ekki, enda mátti enn þá sjá að hún hafði að miklum hluta verið samin í danska kansellíinu eins og Jón forseti komst að orði á sínum tíma. Því má segja — með stjórnarskrána í huga — að 17. júní 1944 hafi Íslendingar tjaldað til einnar nætur á Þingvöllum, í gömlu dönsku tjaldi.“