150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er kannski aðeins að reyna að átta mig á því hvers konar andsvar þetta var, nema hvað hv. þingmaður lýsir hér yfir að honum, rétt eins og mér, líði eins og bilaðri plötu í umræðum um þetta mál. Það er vissulega ágætt að við séum sammála um eitthvað þegar kemur að stjórnarskránni og umræðum um hana. Það sem ég var hins vegar að gagnrýna, virðulegur forseti, með ummælum mínum í ræðu minni var að hér erum við að ræða um nýju stjórnarskrána sem flokkur hv. þingmanns hefur staðið gegn og sá flokkur nýtir ekki tækifæri til þess að koma í ræðu og útskýra fyrir okkur hvers vegna hann standi gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012, hvernig hann réttlæti að virða ekki vilja þjóðarinnar í þessu máli en tali svo um þjóðaratkvæðagreiðslur í öðru máli eins og þær eigi að skipta nokkru einasta máli í framhaldi þeirrar framkomu.

Hv. þingmaður tók til áðan að hann væri opinn fyrir því að skoða ákveðna kafla og ákveðin ákvæði í stjórnarskránni og endurskoða þau, væntanlega eftir hentugleika síns flokks og því sem honum þóknaðist. En það er ekki til umræðu hér. Það sem er til umræðu er frumvarp stjórnlagaráðs sem var lagt til grundvallar vinnu sem átti að snúa að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er flokkur hans sem einna helst hefur staðið gegn því að svo megi verða. Mér þætti því tilefni til þess að þingmenn úr flokki hv. þingmanns kæmu hingað og skýrðu hvers vegna þeir virða ekki vilja þjóðarinnar og hvers vegna þjóðin ætti nokkru sinni að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu aftur ef þetta er viðhorfið sem henni mætir í kjölfarið.