150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í umræðunni hefur verið talað um þverpólitíska sátt. Mér finnst það áhugavert umræðuefni því að þverpólitísk sátt snýst ekki um að allir þurfi að vera sammála um efni máls og jafnvel ekki heldur um aðferðafræði. Þverpólitísk sátt snýst um það hvort breyta þurfi eða ekki. Miðað við þau skilaboð sem við höfum fengið í þjóðaratkvæðagreiðslu er tilefni til að breyta. Sumir vilja breyta einu í einu. Sumir vilja bara breyta ef þjóðin kallar eftir því með nægilega miklum hávaða eða meiri hluta. Sumir eru hins vegar konungssinnar og vilja halda aðalstign sinni og völdum samkvæmt því. Því að hvað er hægt að kalla þá sem vilja sem minnstu breyta í þeirri stjórnarskrá sem við fengum frá konungsvaldinu annað en konungssinna? Við glímum við áhugavert vandamál. Eftir allt þetta ferli eru hafðar í frammi ásakanir um að minni hlutinn sé að berja á meiri hlutanum. Í því stjórnkerfi sem við búum við er það gersamlega súrrealísk ásökun því að við erum allvön því að það sé einmitt meiri hlutinn sem er að berja á minni hlutanum og það eina sem minni hlutinn geti gert sé að reyna að veifa flöggum og mæta hér upp í ræðustól Alþingis til að halda aftur af valdamisnotkuninni þegar allt kemur til alls. Við lendum í því að málið er þæft með rökum sem ganga ekki upp við minnstu skoðun þegar verið er að spyrða saman tæknilega galla í kosningu til stjórnlagaþings og afurð stjórnlagaráðs og svo niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við erum að glíma við ákveðið vantraust í stjórnmálum eftir hrunið. Það er því mjög skiljanlegt, það er rosalega skiljanlegt, að þingið hafi ákveðið að setja frumvarpsgerðina í hendur annarra. Það er bara rosalega skiljanlegt og það er líka rosalega skiljanlegt að almenningur treysti þinginu ekki til að klára þetta verkefni. Ég skil það mjög vel. Það er því, finnst mér, augljóst að þingið ætti sem minnst að hafa puttana í þessu ferli af því að það er einmitt þjóðin, sem er stjórnarskrárgjafinn, sem er að reyna að hafa hemil á þeirri valdamisnotkun sem við höfum upplifað á undanförnum áratugum. Það er auðveldlega hægt að gefa mörg nýleg dæmi um það; Landsréttur er eitt, að stinga skýrslu undir stól er annað o.s.frv. Við búum enn við þessi vandamál sem margt í nýju stjórnarskránni lagar.

Hér hefur verið talað um sérfræðinga og sannfæringu, að ekki sé tekið mark á hinum og þessum sérfræðingum heldur á öðrum. Það var líka gert í orkupakkamálinu. Sérstaklega mikið mark var tekið á ákveðnum sérfræðingum en ekki hinum. Það er bara þannig sem sannfæring okkar virkar. Við skoðum málflutning allra, vegum og metum, og þegar tveir sérfræðingar eru ósammála, hvorum á ég að taka mark á? Ég verð að nota mína eigin sannfæringu. Ef ég á eitthvað erfitt með það leita ég væntanlega til fleiri aðila til að fá lánaða dómgreind.

Það er talað um að þetta frumvarp feli í sér víðtækar breytingar. Ég held því hins vegar fram að það sé ósatt. Það er beinlínis ósatt því að 80% af núverandi stjórnarskrá er að finna í nýju frumvarpi. Þetta eru nú ekki víðtækari breytingar en það. Aðalbreytingarnar eru viðbæturnar. Ekki er að finna víðtækar breytingar í frumvarpinu heldur víðtækar viðbætur. Það er ekkert óeðlilegt heldur því að stjórnarskrárfræðin hafa þróast mjög mikið á undanförnum áratugum og við erum komin í meira en 100 ár hérna. Víðs vegar um heiminn hafa bæst við stjórnarskrárréttindi og ýmsar greinar í stjórnarskrá sem loks er verið að taka upp núna í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Við erum loksins að uppfæra, við erum að hoppa úr stýrikerfi Windows 95 yfir í Linux. [Hlátur í þingsal.] Allt í lagi; úr Makka 2 yfir í Makka 10 eða eitthvað svoleiðis. Við erum að sleppa rosalega mörgum skrefum í stýrikerfisuppfærslum af því að við höfum hunsað það svo lengi að uppfæra. Ég get skilið að það sé mjög óþægilegt fyrir hina klassísku valdhafa í íslensku samfélagi sem hafa stjórnað kerfinu í áratugi og hafa hannað það eftir sinni hugsun, þeim finnst það að sjálfsögðu óþægilegt að ákveðnir veikleikar og brestir séu í því. Þeim finnst það sérstaklega óþægilegt ef breyta á einhverju í stjórnarskránni, konunglegu stjórnarskránni þeirra, sem styrkir vald þeirra svo rosalega mikið því að það er svo auðvelt að túlka það fram og til baka hvað hægt er að gera samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Við höfum séð það þegar undirskrift á lögum hefur verið neitað. Við höfum séð það þegar því hefur verið neitað að rjúfa þing. Það kemur bara hentugleikaskýring í hvert skipti sem er þá fordæmi til framtíðar, en sú ákvörðun hefur jafnvel gengið gegn túlkun fræðimanna fram að því. En það er enginn sem getur sagt neitt við þeirri túlkun. Það er þess vegna sem þarf að fara að breyta og grufla aðeins í þeim greinum sem oft er talað um að séu augljóslega gallaðar og geti boðið upp á gríðarlega valdmistnotkun.

Ég gerði samanburð á stjórnarskránni og frumvarpi stjórnlagaráðs árið 2016. Ég er aðeins að vinna í því að gera samanburð á stjórnarskránni og þessu frumvarpi. Það hefur komið fram að mjög lítill munur er þar á, enn eru um 80% af núverandi stjórnarskrá í frumvarpinu sem hér um ræðir. En þær greinar sem detta út, sem hverfa, sem eru ekki lengur til staðar, ef farið verður í þessar breytingar eru greinar um að forseti Alþingis stýri fundum þess, ef ágreiningur er á milli þeirra ræður meiri — nei, fyrirgefðu, ég er á röngum lista, nei, ég er á réttum lista — geymi Alþingi eitt skjal sem er með undirskrift að eiðstaf og Þjóðskjalasafn geymi hitt. Það eru ýmis svona ákvæði sem maður spyr, þegar maður skoðar þau betur, til hvers séu. Það er annað komið í staðinn sem er t.d. miklu nútímalegra. Forseti lýðveldisins hefur aðsetur í Reykjavík eða nágrenni. Til hvers þarf að hafa það í stjórnarskránni? Það voru nokkur ákvæði hér, ég tók þetta ekki alveg nógu vel saman áður en ég fór upp. Alþingi starfar í einni málstofu, allt í lagi.

Það er mjög margt sem við glímum við í samfélaginu í dag. Og já, það er hægt að taka eitt hænuskref í einu. En við höfum sleppt því að stíga þau hænuskref í áratugi. Í þeim aðstæðum horfum við upp á stjórnarskrána eins og hún lítur út núna og hún er í alvöru ekki vel skiljanleg. Hún er kannski skiljanleg einhverjum fræðimönnum en svo kemur bara forsetinn og ákveður eitthvað annað. Það er ekki stjórnkerfi sem við eigum eða getum sætt okkur við, alls ekki. Það eru allir kaflar stjórnarskrárinnar sem þurfa uppfærslu. Það eru ekki víðtækar breytingar, þetta er einföld uppfærsla. Það sem þarf að gera víðtækt er að bæta við öllum þeim réttindum sem hafa komið inn í stjórnkerfi heimsins á undanförnum árum og áratugum. Það er þar sem aðalviðbæturnar eru, ekki breytingarnar. Það er ekki breyting á stjórnarskrá að bæta við nýjum réttindum, alls ekki. Það er uppfærsla á réttindum. Við erum eftir á í réttindum miðað við aðrar þjóðir þannig að þau rök, sem ég hef heyrt frá þeim sem segja að við verðum að gera lítið í einu af því að víðtækar breytingar valdi öngþveiti, óreiðu, ringulreið eða kollsteypum, ganga einfaldlega ekki upp ef maður skoðar efni stjórnarskrárinnar og þess frumvarps sem liggur hér fyrir þinginu. Þau ganga ekki upp og mér þætti rosalega vænt um að fá fleiri en Sjálfstæðismenn í andsvör því að það eru fleiri flokkar í ríkisstjórn og það eru fleiri flokkar á þingi líka til að tala um stjórnarskrá Íslands sem hefur ekki verið uppfærð af neinni alvöru nema bara í þeirri neyð að bæta við mannréttindakaflann seint og síðar meir. Við erum langt á eftir öðrum. Ég kalla eftir þátttöku allra flokka í þessari umræðu til að útskýra það í skýru og ítarlegu máli fyrir landsmönnum hvers vegna í ósköpunum við eigum að vera svona eftir á í réttindum sem stjórnarskrá veitir.