150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég vildi kannski nefna tvö atriði. Mér fannst ágætt hjá honum og get alveg tekið undir það að tillögur stjórnlagaráðs verða ekki slegnar út af borðinu með tilvísun til Venesúela eða stjórnarskrárinnar þar. Það er auðvitað ekki þannig, ekki frekar en menn geta komið hér og sagt að núgildandi stjórnarskrá sé ómöguleg af því að hún eigi sér danskar rætur. Það er ekki efnisleg röksemd í málinu á hvorugan veginn, þannig að það sé sagt og ágætt að horfa á það.

Jafnvel þó að aðdragandinn og málsmeðferðin og annað skipti kannski máli um það hvernig við nálgumst viðfangsefnið held ég að við hljótum alltaf að taka fyrir hina efnislegu þætti, hinar efnislegu breytingar. Ég lít svo á að sú vinna sem nú á sér stað á vegum hæstv. forsætisráðherra, og formenn allra stjórnmálaflokka hafa tekið þátt í, miðist einmitt við að fara í efnislega umfjöllun um hina mismunandi kafla og ákvæði stjórnarskrárinnar til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu um það, bæði um núgildandi ákvæði og um nýmæli.

Ég hef sjálfur tekið þátt í vinnu sem hefur miðað að því að taka fyrir ákveðin ákvæði og reyna að ræða sig niður á niðurstöðu í þeim efnum. Þar hefur að einhverju leyti verið horft til tillagna stjórnlagaráðs en líka annarra tillagna sem hafa komið fram um svipuð efni.